Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestur skírir barn fyrir huldufólk

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Prestur skírir barn fyrir huldufólk

Það var einn tíma þá er Stefán prófastur Þorleifsson prófasts Skaftasonar var prestur í Presthólum (1743-84) að sauðamaður hans kom frá beitarhúsum um veturinn seint um kvöld; lá leið hans fram hjá borg einni eður stórum steini er þar var milli sauðahúsa og bæjar. Heyrir hann þá söng mjög fagran í borgina; nemur hann nú staðar og hlýðir til um stund. Þykist hann glöggt kenna söngrödd Stefáns prófasts því hann var söngmaður góður og heyrir hann að sunginn er skírnarsálmurinn gamli á grallaranum og mátti hann gjörla nema orðaskil í söngnum. Sauðamaður gengur síðan heim. En er hann kemur í baðstofu spyr hann hvort prófastur sé heima. Honum er sagt að svo sé og muni hann vera í svefnhúsi sínu í öðrum enda baðstofu og hafa lagt sig fyrir svo sem vandi hans var til í rökkrum. Sauðamaður spyr hvort prófastur hafi þá ekkert farið í kvöld en heimamenn neita því og kveða hann alls eigi hafa gengið fram úr húsi sínu á því kvöldi. Þetta þykir sauðamanni undarlegt og segir ráðakonu prófasts hvað hann hafi heyrt í borginni. Hún kveikir þegar ljós og ber inn í húsið til prófasts eins og hún var vön að gjöra á kvöldum. Liggur hann þá í sæng sinni og vakir. En henni verður litið til hvar skór hans liggja snjóugir og frosnir við sængurstokkinn og þóttist hún þó vita til víss að prófastur hefði eigi neitt gengið frá húsi það kvöld. En eigi þorði hún að spyrja hann eftir um þenna hlut eður segja honum umræðu sauðamanns.