Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Presturinn í Haga og álfkonan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Presturinn í Haga og álfkonan

Prestur einn hét Kollur. Hann var prestur að Haga á Barðaströnd. Einhverju sinni þegar prestur var í stólnum kemur maður inn í kirkjuna og kveður þetta á kirkjugólfinu:

Fyrir pilt á eg prest að sækja,
prúðan mann fyrir brúði,
– flýttu fagri messu –
fleinameið yfir heiði.
Skírn vill skepnan þiggja,
skírist hún bezt í Kristi;
á laugardaginn fékk létta,
leystist fljóð af móði.

Maður þessi var sendur frá álfkonu sem vildi fá skírn handa barni sínu, en prestur vildi ekki gera það.

Daginn eftir kom álfkonan sjálf með þrenn messuklæði og bað prest skíra fyrir sig barnið sem hún væri með og bauð honum til þess messuklæðin, en hann kvað nei við. Varð hún þá reið og fór á burtu, en skildi þó eftir ein klæði, þau lökustu, á kirkjugarðsveggnum og eru þau enn til í Haga á Barðaströnd.