Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Rafnkell á Núpakoti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rafnkell á Núpakoti

Rafnkell Ólafsson var bóndi á Núpakoti hér í sókninni;[1] hann ólst fyrst upp hjá Höskuldi sterka bróður sínum. Þegar hann var nokkuð til þroska kominn sat hann sem oftar á rúmi sínu og var að eta miðdagsverð. Datt honum allt í einu í hug að biðja sér stúlku, þeytti frá sér sméröskjunum opnum, hníf og átmat, hleypur vettlingalaus og berhöfðaður hingað út að Steinum og gekk erindið. Hann varð bezti efnamaður og oftast nær örlætismaður, en artar- og verumaður við vini sína og veitti þeim oft og stórum. Karl var þá á Svarfbæli gamall og örvasa sem verið hafði fornvinur Rafnkels; honum færði hann ávallt sauðarfall á jólunum og gjafir fyrir hverja stórhátíð. Karli þessum var þetta hans örlæti minnilegt og bað honum oft og tíðum launa fyrir. Einu sinni spurði hann Rafnkel að hvort hann vildi ekki hann yrði draummaður hans þegar hann dæi, og játaði hann því.

En hina næstu nótt eftir það karlinn er dauður kemur hann til hans í svefni og spyr hvers hann vili nú spyrja sig eður hvort hann vili hann sé draummaður hans. Hann játaði því og spurði hvers hann lysti.

Einu sinni var kýr að ríða hjá honum um veturinn í öskubyl, en sleit sig upp og slapp út í bylinn og fannst ekki. Sögðu menn honum það, en hann gaf sig lítið að því og hélt hún mundi skila sér aftur. Um morguninn stóð hún við fjósdyrnar. Leið svo um veturinn að hún reið aldrei aftur. Töluðu menn um það að hún mundi ganga af tímanum. Hann sagði menn skyldu ekki gefa sig að því; sagði hún hefði fengið fyrir Dalnautinu. – Það er sagt einkenni á huldukúm að þær eru því nær róulausar.

Einu sinni hvarf hjá honum fyrirtaksvænn sauður í vondu veðri og snjógangi. Ekkert æðraðist hann um það, en tók sér miðdagsdúr og sofnaði. Að stundu liðinni vaknar hann og kallar til Margrétar dóttur sinnar: „Manga, fá mér skóna!“ sprettur upp hart og á fætur og bregður sér fram að Svaðbæli[2] og mölvar þar upp skemmu; er þar þá verið að skera sauðinn.

Fáir eru þeir staðir hér í Steinum sem huldufólk byggir; þó er álfakirkja uppi á Lambalágum að sögn Margrétar dóttur hans sem var svo rammskyggn að hún sá nærri ljós í hverjum steini.

  1. Þ. e. undir Eyjafjöllum.
  2. Svaðbæli er ýmist kallað Svaðbæli eða Svarbæli og Svarfbæli. Þar er munnsaga um að Þorgeir skorargeir hafi haft þar smiðju sína og því sé Svarfbæli réttast. [Hdr.]