Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ragnheiður Pálsdóttir elur barn í álfhól

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ragnheiður Pálsdóttir elur barn í álfhól

Þegar Ragnheiður Pálsdóttir móðir Brynjólfs biskups Sveinssonar var heimasæta að Staðarhóli í Saurbæ er svo frá sagt að einn dag hafi hún farið til fundar við bónda einn í Fjósakoti og beðið hann að söðla sér hest og fylgja sér fram á Traðardal. Riðu þau síðar leiðar sinnar unz þau komu fyrir leiti eitt. Þar bað hún hann bíða sín til miðaftans næsta dags og það gjörði hann. Ragnheiður var mjög skrautbúin og þar á meðal hafði hún rauða „damasks“-svuntu alsetta dýrmætum silfurknöppum og utan yfir aðra lakari bláa að lit. Síðan skildi hún við bónda og hvarf fyrir áðurnefnt leiti í dalnum. Vissi bóndi ei til hennar fyrr en um miðaftan daginn eftir, þá kom hún aftur. Sá hann þá að hún var bragðfölvari en þá er þau höfðu skilið; var þá og horfin dýrindissvuntan rauða. Hafði hún meðan brottu var, alið barn í álfhól og bað hún bónda þegja yfir ferð sinni og gaf honum tuttugu spesíur fyrir ómakið.