Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ragnhildur matselja og skessusonurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ragnhildur matselja og skessusonurinn

Í Skagafirði var stúlka í sumarseli. Eitt skipti kom til hennar maður stór og fríður og að öllu gjörvilegur, klæddur kápu gullsaumaðri; hann heilsar henni kurteislega, en hún tók hönum fálega. Þetta bar til oftar en þetta sumar að hann kom og ræddi við hana um ýmsa hluti og fann hún hann var gáfum gæddur. Fór hún að ráða það á tali hans að hann vildi fá hana til eignar. Jafnvel þó henni félli hann vel í geð kvaðst hún ekki ráða sér, faðir sinn mundi sjá fyrir ráði sínu, en fór og spurði hann um ætterni hans. Hann kvaðst eðalmannsson af Vallandi, en móður sín væri tröllskessa og byggi þar í fjallinu. „Fór hún hamförum og sókti föður minn og nam hann til sín; var hann í kápu þessari þegar hún nam hann burtu.“ Loksins komst svo langt fyrir þeim að hún segir föður sínum frá. Lét hann sér fátt um finnast, en lét þó hana ráða á sér að sér þækti áhætta að neita með öllu og víst yrði hann að sjá hann. Ragnhildur – svo hét hún – sagði manninum frá, enda brá hann við og fór til föður hennar og beiddi hennar með fullri einurð. Leizt bónda maðurinn líta vel út, þó nokkuð stórskorinn. Varð það afráðið að gefa hönum stúlkuna. Fer hann til stúlkunnar í selið og segir henni heitið, en kvaðst nú eiga eftir að segja móður sinni því faðir hans var dáinn; kellingin sumsé reiddist eitt sinn við hann, sló hastarlega til hans svo hann dó enda gjörði hún sér gott af óhappi sínu og át hann, og var syni hennar ekki um móður sína eftir það. Nú fór maðurinn og sagði tröllskessunni frá fyrirtæki sínu og kvað hún hann skyldi sjálfur ráða gifting sinni, en kvaðst mundi koma í selið og sjá hana. Pilturinn finnur stúlku sína í selinu, segir henni frá komu móður sinnar og kvað henni bezt að vera ekki úti þegar hún komi, en hún skuli taka stamp eða kerald, fylla með skyr og mjólk og láta aususleif hjá og láta utan dyra. En þegar kelling kom stóð Ragnhildur fyrir innan dyrnar svo þær sjá hvur aðra; verður kerling glöð við og spur hvurt hún ætli ekki að koma út og heilsa sér. Hin býður henni kurteislega að taka sér frókost áður, en hún skuli gjöra það þegar hún sé búin að fá hressingu. Kerling verður léttbrýn og tekur greypilega til matar og fyllir sig vel, þakkar síðan fyrir matinn og kastar síðan kveðju á Ragnhildi og gengur burt. Var hún seinfær því hún hafði borðað heldur freklega. Finnur hún á leiðinni son sinn þar hann stóð á háum klettahömrum og beið hennar. Kemur kerling kát til hans á hamarinn og þykir mikið koma til stúlku hans sonar síns því hún hafi gefið sér svo vel að borða. Hann kvað sér það vel líka, en þegar þau snúa sér við og ætla þaðan reikar kerling á fótunum með fyllina, en hann bregður við hart og hrindir á eftir svo kerling hrýtur fram af og stóð ekki upp framar.

Að nokkrum tíma liðnum var haldið virðuglegt brúðkaup þeirra hjá föður hennar; var hann þá klæddur kápunni gullofnu og þókti höfðinglegur, svo tíguglega búinn, og vonum framar gáfum gæddur. Þess er getið að þau hafi átt þrjú börn, en þegar prestur skírði börn hans gaf hann bæði prestinum og kirkjunni einhvurn dýrgrip til eignar. Sagt er að hann hafi síðari part ævi sinnar ekki þókt að öllu við alþýðu [skap] og oft hafi hann verið í hellir sínum því þegar kona hans átti þriðja barnið varð hún veik og dó skömmu síðar. Hafði hann þá hvurgi yndi. Þegar hún var dáin bað hann föður hennar að ala vel upp börn sín, en fékk honum nægilegan forlagseyrir til að ala þau vel upp; var það mest í fásénum gersemum en hann hvarf burt með öllu svo enginn vissi til hans. Var þá leitað hellirsins; var hann aftur luktur; héldu menn hann hafa lukt hann að sér og segir ekki af honum framar.

Börn hans uxu upp og urðu mannvænleg; er helzt til tekið sonar hans fyrir aflsmuna sakir. Er sagt að enginn hafi vitað hans krafta; þegar hann var hniginn á efra aldur var gamalt naut illt viðureignar; þókti honum boli gjöra hindrun verkamönnum; gekk hann með hægð að kusa, tók annari hönd í horn en annari í kjaftvik hans og snaraði honum [úr] hálsliðnum. Hann átti eina dóttur og var haldin merkiskona. Var hún fyrir búi hjá manni sem bjó á Gvendarstöðum á Gönguskörðum, en gömul kona fróð og minnug sem mér sagði sögu þessa sá hana í ungdæmi sínu, og var hún að sjá stórskorin, en þó góðmannleg – og endar svo þessa sögu.