Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Rauðhöfði (1)

Úr Wikiheimild

Einu sinni fóru menn nokkrir af Suðurnesjum út í Geirfuglasker til að veiða geirfugl. En er þeir ætluðu burt aftur vantaði einn manninn. Þeir leituðu hans um skerin, en fundu ei og snéru heim aftur við svo búið. Ári seinna fóru Nesjamenn enn í skerin til fuglaveiða. Fundu þeir þá manninn. Var hann þar á gangi í skerinu og hinn kátasti. Þeir tóku við honum vel og þóttust hann úr helju heimt hafa. Álfar höfðu hyllt manninn og haldið honum hjá sér um veturinn og farið vel með hann. Höfðu álfarnir viljað að hann ílengdist þar hjá sér, en hann hafði eigi viljað það. Nú var svo komið að ein álfkona gekk með barni hans og fékk hann heimfararleyfi með því móti að hann lofaði því að hann sæi um að barnið væri skírt þá er það kæmi til kirkju. En móðirin kvaðst mundi koma því að Hvalsnesskirkju, en þangað átti hann tíðir að sækja. Fór hann nú í land með Nesjamönnum og urðu honum allir fegnir. Leið nú svo nokkra stund að ei bar til tíðinda.

Einn sunnudag bar svo við þá er menn komu til tíða á Hvalsnesi að þar stóð vagga fyrir utan kirkjudyr og var barn í vöggunni. Yfir vöggunni lá ábreiða fögur mjög og vönduð úr ókennilegum vefnaði. En ofan á vöggunni lá miði og voru þar á rituð þessi orð: „Sá sem faðir er að barni þessu mun sjá um að það verði skírt.“

Menn undruðust atburð þenna, en engi vildi kannast við faðerni barnsins eða taka það að sér. Presturinn fékk grun á manninum sem vantað hafði heilt ár því honum þótti útivist hans og vera í skerinu eigi síður undarleg en þetta og hugði hann hann vera föður barnsins eða vita til þess. Gekk hann þá að honum og spurði hann að hvort hann væri ei faðir barnsins. Maðurinn brást við þurrlega og kvaðst ei vera faðir barns þessa og að sig skipti engu hvað um það yrði. En í sama bili er þeir töluðust við kom þar að kona mikil og sköruleg. Hún var reiðuleg mjög, þreif ábreiðuna af vöggunni og kastaði henni inn í kirkjudyrnar og mælti: „Ekki skal kirkjan gjalda.“ Gaf hún þá kirkjunni ábreiðuna og hefur hún síðan verið höfð fyrir altarisáklæði í Hvalsnesskirkju og þótt hinn mesti dýrgripur. Síðan vék hún sér að manninum og mælti: „Það mæli ég um og legg á að þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó og granda mörgum skipum.“ Síðan hvarf hún og vaggan og vissi engi um hana meir. En þess gátu menn til að þetta mundi verið hafa álfkonan úr Geirfuglaskeri og þótti það af sögu mannsins ráða mega.

En stuttu eftir að konan var horfin varð maðurinn er hún hafði á lagt óður og tók á rás. Hljóp hann til sjávar og fram af hamri þeim er Stakksgnípa heitir milli Keflavíkur og Leiru. Breyttist hann þegar í hið versta illhveli og var Rauðhöfði kallaður. Hann var illur mjög og áleitinn. Hann drekkti nítján skipum milli Akraness og Seltjarnarness því á því sviði lá hann jafna. Meðal annara sem Rauðhöfði drekkti var sonur prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og annar sonur prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Lögðu þeir þá saman prestarnir því þeir báru illa sonamissirinn og kváðu Rauðhöfða inn allan fjörð þann er liggur milli Saurbæjanna og síðan hefur verið kallaður Hvalfjörður og upp í vatn það á Botnsheiði er síðan er kallað Hvalvatn. Varð þá landskjálfti mikill. Eru því hæðir þær er við Hvalvatn liggja kallaðar Skjálfandahæðir. Það hafa menn til sannindamerkis um atburð þenna að þar hafa til skamms tíma sézt hvalbein og heldur mikil við vatnið. En eigi hefur síðan orðið mein að Rauðhöfða.