Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sálmasöngur huldufólks

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sálmasöngur huldufólks

Þegar Sæbjörg Guðmundsdóttir sem nú er kristfjárómagi á Arnheiðarstöðum var vinnukona á Stapa í Bjarnarnessókn í Nesjum segir hún sér hafi verið sagt einn sunnudag að fara og reka hesta og þar upp frá túni nokkuð. Segist hún þá hafa gengið þar að kletti sem þar hafi [verið] einstakur, en þegar hún hafi verið búin að standa litla stund hafi hún heyrt að byrjað hafi verið að syngja í klettinum og það sem sungið var var sálmurinn „Heiður sé guði himnum á“ orðréttur eins og hann stendur í Grallaranum og svo þegar sálmurinn var úti var byrjað vessið „Mildi Jesú eg minnist nú á miskunn og náð þína“ o. s. frv. og hafði hún aldrei heyrt það vess fyrri, en lærði það þá. En að því búnu þagnaði allt, en hún sá ekkert og telur hún víst að það hafi verið messuendir hjá huldufólki.

Í öðru sinni áður segist Sæbjörg hafa setið lömb hjá afa sínum; þá hafi hún líka komið að kletti þar skammt frá túni, hafi hún þá séð glugga á klettinum, hafi hún gengið þangað og horft inn og séð hvar tveir menn í ljósbláum peysum og eins litar hettur á höfðunum sátu þar inni og vóru að þæfa milli handa. En hún segist hafa hörfað það fljótasta frá, en þegar hún hafi komið heim til afa síns hafi hún spurt hann hvaða menn það væru sem væru í klettinum sem hún til tók, en hann hafi svarað að það væru huldumenn og hafi hann harðlega tekið sér vara að eiga aldrei við þá.