Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sækýr í Breiðuvík

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sækýr í Breiðuvík

Í Breiðuvík við Borgarfjörð í Múlasýslu bjó maður sem hét Bjarni er kallaður var Bjarni sterki. Eitt sumar bar svo við að Bjarni var úti á túni í þykkmiklu veðri og þoku. Heyrir hann þá gripaferð út til sjávar fyrir neðan bæinn. Fer hann þá að horfa út í þokuna; sér hann þá að þar fer nautaflokkur og ei færri en átján og lítill piltur hleypur á eftir, en þar eftir fór kálfur. Bjarni hleypur á stað og í veg fyrir nautin því hann þóttist vita að það mundu vera sænaut. En þegar pilturinn sér það fer hann að herða á nautunum að hlaupa. Það sér Bjarni að uxi fer fyrst og eru hringar á hornum hans, og hringlaði í þegar hann fór að hlaupa. Hlupu svo hver í kapp við aðra, Bjarni og pilturinn, þar til kom í sjávarmál. Var þá Bjarni kominn á milli kálfsins og nautanna og fór pilturinn með nautaflokkinn í sjóinn, en Bjarni sneri móti kálfinum og barði framan á nasir honum svo blaðran sprakk sem sagt er að sé milli nasanna á sænautunum, og komst hún þá ekki í sjóinn og leiddi Bjarni hana heim til sín. Þetta hafði verið kvíga og varð tuttugu marka kýr, og út af henni var hið bezta kúakyn í Breiðuvík lengi fram eftir öldunum.