Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sæmundur í Bjarnadal

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Maður er nefndur Sæmundur. Hann var smalamaður hjá Þórði Sæmundarsyni bróður sínum. Sæmundur gætti þar fjár sem kallaður er Bjarnadalur. Einu sinni kom til hans ungleg kona og bað hann að hjálpa móður sinni. Hann gerði svo og gekk á eftir henni að kletti einum er honum þótti þá bær. Þar leiðir stúlkan hann inn. Lá þar kona á gólfi og var hún þunglega haldin. Stúlkan kvaðst skyldu gæta fjárins meðan hann hjálpaði móður sinni. Hann tók á konu þeirri sem lá á gólfi. Varð hún þá léttari og ól meybarn. Bað þá konan Sæmund að hann leyfði að mærin héti eftir Margréti móður Sæmundar. Hann játti því. Því næst var barnið skírt í nafni heilagrar þrenningar og var Sæmundur viðstaddur. Sagði hann að sunginn hefði verið sálmur með laginu „Á guð alleina“. En er Sæmundur kvaddi konuna hét hún honum sinni fullting er hann þyrfti og hafði hún ent það trúliga.