Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Séra Gísli á Sandfelli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar sr. Gísli[1] var prestur á Sandfelli í Öræfum þá er sagt hann hafi farið einu sinni seint frá Hofskirkju og hafi þá hitt tröllkerlingu skammt fyrir innan Hof. Hún var þá að dysja reyðarkálf og hafi þá prestur sagt við hana: „Nú hefurðu stolið af fjörunni minni, kella;“ en hún hafi þá sagt: „Nóg er eftir handa þér, svarti Gísli.“ Hann átti so að hafa riðið í burt og sent á fjöru daginn eftir og hafi þá steypireyður verið rekin hjá presti, en kálfurinn sást ekki. Þar sem prestur og kerling töluðust við er enn í dag kölluð Hvalvarða, og gil er þar upp undan sem kallað er Hvalvarðargil.


  1. Gísli Finnbogason (um 1631-1703), prestur á Sandfelli 1656-1703.