Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Séra Hávarður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Séra Hávarður

Í Grímstungum fyrir norðan bjó prestur einn. Átti hann dóttir eina unga að aldri; fósturson hafði hann og er Hávarður hét og var hann á rek við prestsdóttur. Prestur hafði vinnumann einn er annaðist mjög drenginn og svaf hann hjá honum. Kvöld eitt fyrir jól kom bróðir vinnumannsins að Grímstungum og beiddist gistingar, og veitti prestur honum það. Þá var siður að sofa í myrkri og beiddi vinnumaður prest um að ljá sér skemmu so hann gæti talað við bróður sinn, og leyfði prestur honum það; en þegar Hávarður litli heyrði það beiddi hann vinnumanninn að lofa sér að fara með þeim og var honum leyft það. Fóru þeir svo út í skemmu, en drengurinn lék sér í dyrunum; sér hann þá koma stúlku á vöxt við prestsdóttur; segir hann að hún þurfi ekki að hræða sig því hann sjái hana. Hún þreif í hann og vildi draga hann út í myrkrið; en hann spyrntist við; ætlaði henni að mega betur, en því var hann ekki vanur af prestsdóttur. Varð honum þá litið út í myrkrið lengra og sá hann stóra konu og varð hræddur og reif sig af stúlkunni, hljóp til bræðranna og settist niður á milli þeirra. Þegar þeir fóru inn beiddi hann vinnumannin að leiða sig og það gerði hann; þótti mönnum hann vera furðu hæglátur um kvöldið. Um nóttina er menn voru lagztir til svefns fram í skála og flestir voru sofnaðir, þá sér Hávarður litli að þessir sömu kvenmenn sem hann sá um kvöldið koma inn í skáladyrnar; færðust þær síðan inn eftir skálanum þangað til þær eru komnar nálægt rúmi því er hann lá í hjá vinnumanninum og var það rétt á móti skáladyrum. Spurði þá prestur drenginn hvort hann hefði séð nokkuð og sagði drengur að það hefði lítið verið. Prestur lét þá vinnumanninn færa sér drenginn og var hann hjá presti upp frá því. Komu konur þessar á hverri nóttu í skálann eftir það um veturinn þangað til nótt fór að birta, þá hvurfu þær.

Hóll var þar skammt frá bænum; svo bar til einn dag að hestar komu um vorið heim á tún og beiddi prestur drenginn að reka þá út fyrir hólinn; en þegar hann fór heim aftur gekk hann fram hjá hólnum og sat hin yngri á honum og veifaði til hans með hendinni; flýtti hann sér heim og sagði presti hvað fyrir sig hefði borið. Þorði þá prestur ekki að láta hann vera þar lengur og sendi hann að Klyppsstað í Loðmundarfirði, og ólst hann þar upp þangað til hann fór í skóla.

Einu sinni eftir að hann var útskrifaður úr skóla var hann á ferð með Oddi biskupi og riðu þeir ofan með stóru gljúfragili, sáu þeir þá skepnu í gilinu; var hún í mannslíki, mórauð með hvítan kross á enni. Talaði Oddur biskup til hennar og spurði hana hvort hún ætti von til himnaríkis, og kvað hún nei við. Hávarður varð síðan prestur á Desjamýri í Múlasýslu og dó þar.

Einu sinni um jólin gekk séra Hávarður á Desjamýri út og kom ekki inn aftur; fór fólkinu að lengja eftir honum og gekk vinnumaður einn út að njósna um hann. Heyrði hann þá mannamál í kirkjunni; hann gengur þangað og lítur inn um gluggann; sér hann þá að prestur er að tala við tvo kvenmenn og var önnur minni en hin. Segir þá hin minni að sú stærri skuli kveða lítið eitt; lét hún tilleiðast og segir:

„Drottning gifti dóttur sína
kóngssyni fyrir utan Rína,
gaf honum góz og garða nóg
og gullið allt í Rínarskóg.“

Þá mælti hin: „Þegiðú Lobba;“ hún kvað:

„Það var á einu kveldi
að Lobba kom með loðna skó
úr Lundúna veldi,
úr Lundúna veldi,“

Þá fóru þær að hlæja, en vinnumaðurinn gekk inn í bæ; kom prestur síðar inn og vissu menn ekki meira um þetta.

Einu sinni fór séra Hávarður á sjó með vinnumönnum sínum til fiskiveiða; þegar þeir komu að landi var mikið brim svo þeim gekk illa að lenda. En þegar þeir voru komnir á land beiddi hann menn sína að setja skipið, en sjálfur sagðist hann mundi fara og hjálpa skepnunum sem væru að hrekjast í briminu fyrir utan. Fór hann síðan í burt og kom ekki fyrr en daginn eftir; vildi hann ekki segja frá hvar hann hefði verið um nóttina.

Einatt er sagt að prestur hafi horfið og var stundum lengi í burtu. Einu sinni var hann spurður hvar hann hefði verið og kvaðst hann hafa verið hjá kunningjum sínum. Prestur hélt vinnumann einn er honum líkaði vel við; beiddi hann prest um að lofa sér að fara með sér þegar hann færi að finna kunningja sína. Prestur neitar því. Sótti vinnumaður því fastar á að fara með honum og kemur þar að að prestur lofar því, en sagði þó að vinnumaður mundi hafa illt af því að fara með sér. Einu sinni ætlar prestur að fara að finna kunningja sína og segir vinnumanni að koma með sér. Segir prestur honum að vera fáorðum og ekki taka undir neitt sem hann heyri sig tala; lofar vinnumaður því. Ganga þeir síðan á stað og norður að Álfaborg; klappar prestur þar upp á og ganga þeir báðir inn. Sér vinnumaður þar tvær konur, aðra yngri, en hina eldri; hin eldri konan fagnar presti vel, en tekur vinnumanni fálega. Töluðu þau svo saman góða stund, eldri konan og prestur; síðan var borið á borð og var sett fram fyrir prest hangiket, brauð og ostur, smjör og flot, en fyrir vinnumann ekki annað en ket og flot; eftir máltíð sátu þau lengi fram eftir og skröfuðu saman. Var presti síðan vísað á vel uppbúið rúm og háttaði eldri konan þar hjá honum; en vinnumanni var vísað á rúm hjá hinni yngri því þar voru ekki fleiri rúm; sváfu þau svo af um nóttina. Seint um morguninn vaknar prestur; var þá sú eldri ákaflega reið svo hún réð sér varla, en hin yngri mjög dauf. Segir þá prestur að nú muni vera mál að halda á stað og kvaddi hann þá konu sína vingjarnlega, en þegar vinnumaður ætlar að kveðja hina segir hún að hún hafi ætlað að gleðja hann fyrir hana dóttur sína; lagði hún þá á hann að hann skyldi hvorki fá kláða né kvef, en ekki skyldi hann geta verið í vist nema þrjár nætur í senn og að hann skyldi ganga fram hjá hverri kirkju sem hann kæmi að á helgum degi, og rættist þetta á honum síðan.

Svo er mælt að huldukóngur hafi búið í Dyrfjöllum, en biskup í Blábjörgum, og átti séra Hávarður ævinlega að róa hjá þeim berhöfðaður þegar hann fór þar um.