Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Síra Einar í Heydölum

Úr Wikiheimild

Síra Einar var smali hjá föður sínum á Hrauni í Aðalreykjadal í æsku sinni, hér um bil tólf ára gamall er fylgjandi atburður að bar. Einar fór að gæta að kindum föður síns og annar drengur með honum, nokkuð eldri – ekki hefi ég heyrt getið nafns hans eður afkvæmis jafnvel þó þeir séu sagðir margir og hann merkismaður – . En er þeir komu á stöðvar kindanna fundu þeir þær ekki, heldur kom yfir þá villa. Hittu þeir svo á hól einn og voru opnar dyr á hólnum. Þar í hóldyrunum stóð kona ein fullorðin að sjá. Sú heilsaði þeim að fyrra bragði og bað þá koma inn til sín meðan élið væri, því það væri ekki ratfært heim enda þyrftu þeir ekki að hugsa til að finna kindurnar fyrr en upp létti élinu. Smaladrengurinn gekk fúslega að þeim kosti, en Einar litli var allt tregari. Fylgdi hún þeim inn í hólinn; var þar fagurt um að litast. Þar var annar kvenmaður, ungur á að líta og fagur og þekkilegur. Þær voru hinar ræðnustu og sérlega alúðlegar. Veittu þær þeim góðan beina. Um kvöldið þegar hátta skyldi bauð sú eldri smaladrengnum að sofa hjá sér; gekk hann að því greiðlega, en Einar skyldi sofa hjá dóttur hennar; var hann næsta feiminn og tregur til þess. Um morguninn snemma reis smaladrengurinn upp frá hinni gömlu konu; var hún þá glöð og kát því hann hafði sýnt henni alla alúð og vinsemd um nóttina eftir vilja hennar alls ótrauður. Einar litli stóð líka upp frá stúlku sinni, hafði hann ekki svo mikið sem snúið sér að henni; var sú yngri allt daufari við Einar. Þeir fengu góðar trakteringar hjá þeim mæðgum; var þá uppléttilegt og gott veður. Fylgdu þær þeim út fyrir hólinn og mælti sú gamla kona vel fyrir rekkjunaut sínum. Sagði hún hann og hans niðjar skyldu verða hinir mestu gæfumenn. „En þér Einar er það að segja að forlög þín eru mikil og muntu verða hinn kynsælasti maður á landi hér, en þar eð þú settir þig á móti vilja okkar læt ég það um mælt að ýmislegt mótlæti fylgi afkomendum þínum allt í níunda lið. Þaðan af mun það heldur til hagsmuna snúast, en flestir munu þeir prestar verða, en þó að sumu undarlegir. Með ýmsu móti mun mótlæti við þá fjallast.“ Það hefi ég heyrt sagt að hin eldri kona og smaladrengurinn hafi barn saman átt og hafi síra Sæmundur Hólm prestur að Helgafelli og prófastur í Snæfellssýslu Guðmundssonar bónda að Staðarholti í Meðallandi verið af þeim dreng kominn.