Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sagan af Katli á Silfrúnarstöðum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einhvern tíma á fyrri dögum bjó bóndi nokkur á Silfrúnarstöðum í Skagafirði. Ei er getið um nafn hans. Bóndi var vel fjáreigandi enda er það sauðjörð in bezta. Lét hann ávallt beita fé sínu fram í fjallið hjá Bessakoti sem kallað er, og stundum lengra, og fór svo lengi fram að ekkert bar til tíðinda og bjó hann þar lengi.

Eitthvert sinn bar svo til á aðfangadagskvöld að fé bónda kom heim hjá Grímshól og vænti bóndi að féð mundi þá og þegar heim koma. Bóndi lét ætíð sjálfur inn fé sitt með smalamanni. Lét hann nú hafa gætur á fénu, og leið góð stund þar til út var komið, og ætlaði að þá mundi féð heim komið, en það var ekki og hafði það ekki færzt nær á þessum tíma. Lét nú bóndi vitja fjárins og reka heim, en smalamaður sást hvergi. Leið nú af nóttin og kom smalamaður ei. Mátti bóndi fá annan að fara með fé sínu. Var smalans nú leitað og fannst hann hvergi. Voru nú margar getur á hvarfi hans fyrst um sinn. En þó fór svo að umtal minnkaði um þetta eins og vant er að vera þegar frá líður. Bar nú ekki til tíðinda til næstu jóla.

Á aðfangadagskvöldið, þegar hálfrokkið var, kom féð heim hjá Grímshól og nam þar staðar; fór nú allt á sömu leið og hið fyrra árið. Verður nú bóndi mjög hryggur og hugsandi út af hvarfi smala sinna, og tekst nú að nýju mikil orðræða um þetta og þykir ekki einleikið vera, og vilja nú fáir til verða að gæta fjár bónda og varð bónda illt til manna.

En um vorið fékk hann einn mann átján vetra gamlan er Ketill hét; var hann maður ötull og hugdjarfur. Um haustið tók hann við fjárgeymslu og beitti sem vant var. Leið nú fram til jóla. Á aðfangadaginn var gott veður og rak Ketill fé sitt að venju. Hugðist nú bóndi að hafa nákvæmar gætur á er féð kæmi og vitja sem fyrst um smalamann. Og er rökkva fór kom bóndi út og hugði að fénu. Sá hann þá ekkert til þess og fór inn aftur. Að stundu liðinni kemur hann út og er þá féð komið út hjá Grímshól. Er þess nú strax vitjað, en Ketill sést hvergi. Fellur bónda þetta mjög þungt og þykir ekki betra að missa Ketil en báða hina; ætlar nú líka víst að enginn muni framar til verða að gæta fjár síns.

En það er af Katli að segja að þegar liðið var á daginn rak hann fé sitt heim á leið og fer það í dreif einni mikilli undan honum út fjallshlíðina. En er hann kom út undir Grímshól sér hann hvar skepna ein afar stór kemur úr skarði litlu sem er neðan til í fjallið upp undan Silfrúnarstaðabæ hvar hamar einn lítill stendur að neðan, svo sem laus frá fjallshlíðinni, og er skarð það kallað Klauf. Óvættur þessi stefnir nú á móti fénu. En það hörfar aftur í fang Katli. Sér hann nú að þetta er tröllskessa afar mikil. Kallar hún þá til Ketils og biður hann láta sig fá kind til hátíðarinnar. Þykir nú Katli vandast málið og segir henni að hann eigi ekkert af fé þessu utan eina dilká sem hann vísar henni á og segir hún megi taka ef hún vilji. Var hún fljót að ná kindum þessum, krækir þeim saman á hornunum og kastar á öxl sér. Síðan veður hún að Katli, tekur hann í fang sér og snýr til baka sömu leið og hún kom. Og er hún kom upp úr Klaufinni hélt hún út fjallið neðanvert og skálmaði stórum. Ekki sá Ketill sér til neins að brjótast um því hann mátti sig varla hræra. Fór hún nú leiðar sinnar þar til hún kom að Bólstaðarárgili, við foss einn mikinn sem þar er neðan til í fjallinu. Þetta er klettagil vont og lítt fært. Þar fór skessan ofan og gekk í hellir einn sem var undir fossinum. Lét hún þá Ketil lausan og fleygði niður byrði sinni. Bað hún nú Ketil að slátra kindunum og gjöra til og kvaðst hún ætla að halda sér og honum af þeim jólaveizlu. Setti hún nú ketil á hlóðir og sauð sem snarast. Tók hún síðan til matar allstórkostliga og lét Ketil snæða með sér. Sagði hún honum þá að hún væri völd að hvarfi smalamanna frá Silfrúnarstöðum og hefði hún komið til þeirra tvö fyrirfarandi aðfangadagskvöld og beðið þá að láta sig fá eina kind til soðningar á jólanóttina. En þeir hefðu svarað sér illu og hrakyrt sig mjög í orðum og hefði hún því séð fyrir þeim. En nú hefði hann orðið vel við bón sinni og mundi hann mesti gæfumaður verða; hefði hann þó átt af færra fé að gefa en hver hinna. Sagði hún að á þorranum í vetur mundi húsbóndi hans deyja og skyldi hann þá fá jörðina til ábúðar og reisa þar bú á næsta vori. Ketill kvað sér ómögulegt að taka jörð þessa; væri hún bæði stór og erfið, en hann efnalaus. Líka vantaði sig bústýru og fólk. Hún sagði hann mundi ekki neitt skorta; kvaðst hún nú mundi deyja innan mánaðar og skyldi hann þá eiga allt er fémætt væri í hellir sínum og mundi hann þá ekki fé skorta til að reisa bú á Silfrúnarstöðum. En þess kvaðst hún vilja biðja hann að hann vitjaði sín að mánuði liðnum og kæmi hræi sínu fram í fossinn ef hann fengi því til leiðar komið. Hún sagði að bú húsbónda hans mundi selt verða á næsta vori og skyldi hann þá kaupa það sem hann með þyrfti og sækja andvirði í hellir sinn. Hann skyldi ráða til sín fólk það sem nú væri á Silfrúnarstöðum og síðan skyldi hann biðja dóttur prestsins á Hafsteinsstöðum til handa sér. Ketill kvað sér það ofráð reynast mundi þar hann væri umkomulaus og ómenntaður. Hún bað hann ekki því kvíða, „og er hér belti eitt,“ segir hún, „og skaltu spenna það um hana. Hefur beltið þá náttúru að hún fær ást til þín og mun þá vel hlýða.“ Var beltið og hinn bezti gripur.

Ketill vill nú heim fara og segir bónda muni leiðast burtuvera sín. En kerling kvað það ekki saka og bað hann kyrran vera til morguns. Og lætur Ketill það eftir henni. Um morguninn fylgir hún honum úr fossinum og sýnir honum hvar ganga má í hellirinn og lætur hann reyna og tekst honum það vel. Skilur nú kerling við hann og segir þau muni ekki aftur sjást; árnar hún honum allra heilla og segir honum flest að óskum ganga muni og sé þetta upphaf hamingju hans. Skilja þau nú með blíðu og fer kerling aftur í hellir sinn, en hann heldur heim sem hvatast. Lá þá bóndi í rekkju sökum hugarangurs út af hvarfi Ketils. En er Ketill kom urðu allir glaðir, einkum bóndi, og reis hann þá úr rekkju og þóttist Ketil úr helju heimt hafa. Spurði hann Ketil hvað valdið hefði hvarfi hans. En hann vildi lítið þar um tala og gat alls ekki um skessuna eða hellirinn. Hirti Ketill féð eins og verið hafði. Að mánuði liðnum fór hann í hellirinn. Var þá skessan dauð. Kveikti þá Ketill ljós því hann hafði eldfæri með sér og kom hann hræi hennar fram úr hellinum. Og sagði Ketill svo síðar að það hefði verið sú mesta þrekraun er hann hefði reynt. Kannaði hann nú hellirinn og fann þar auðæfi mikil í alls konar gripum og peningum, en lét þar allt kyrrt að sinni.

Á þorranum lagðist bóndi veikur; lá hann í hálfan mánuð og deyði síðan. Falaði þá Ketill jörðina til ábúðar. Var því lítt svarað; þótti eiganda það hin mesta fásinna að leigja honum hana, en þó byggði hann ekki öðrum. Leið nú að vori og seldu erfingjar bónda mestan hluta bús á Silfrúnarstöðum, og keypti Ketill mikið af því og greiddi strax af hendi verðið. Hafði hann og ráðið til sín flest þau hjú er þar voru. Varð nú og auðsótt fyrir hann að fá jörðina leigða.

Um vorið bjóst hann til ferðar út að Hafsteinsstöðum; hittir hann fyrst prestsdóttur, gefur henni beltið og spennir því um hana. Ber hann þá upp fyrir henni erindi og kveðst ætla að fá hana til ekta. Lízt henni maðurinn fríður og efnilegur og með því líka að beltið kveikti ósjálfráða ást í brjósti hennar sagðist hún skyldi gefa þar til jáyrði sitt ef faðir sinn vildi það samþykkjast. Hóf nú Ketill upp bónorð sitt við prest og bað dóttur hans. Prestur tók því fáliga og fannst það á að honum þótti Ketill ekki samboðinn dóttur sinni þar sem hann var sléttur almúgamaður. En fyrir það að Ketill var nú ríkari orðinn en menn áður hugðu og maðurinn gjörviligur og vel viti borinn þá lét prestur loks til leiðast að hún færi til hans fyrir bústýru um sumarið; og var það að ráði gjört.

Fór nú Ketill heim með prestsdóttur og féll vel á með þeim um sumarið. Um haustið kom faðir hennar og urðu þá þær málalyktir að Ketill festi prestsdóttur og var brúðkaup þeirra um haustið og hið stórmannlegasta. Unntust þau vel og bjuggu á Silfrúnarstöðum til elli. Varð Ketill hinn mesti lánsmaður og stórríkur. Þóttust menn ekki vita að nokkur jafnríkur honum hefði á Silfrúnarstöðum búið. Enda skorti hann ekki fé úr hellir skessunnar á meðan hann var að færa bú sitt í lag og líka fór hann í öllu að ráðum hennar.

Sögu þessa sagði hann á ofanverðum dögum sínum og hefur hún nú lengi geymzt í manna minni og hver sagt öðrum.