Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sagan af Ljúflinga-Árna eða Álfa-Árna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagan af ljúflinga-Árna eða álfa-Árna

Það bar til í Seley á Reyðarfirði austur að þar voru sjómenn til fiskiveiða. Þeir áttu þar sjóbúð og lögðu sig um kvöldið til svefns í henni, og um morguninn er þeir lágu sofandi vakti einn þeirra sem Árni hét og gat með engu móti sofið; lá hann þannig að hann hafði höfuðið á sængurstokkinn og horfði út í dyrnar. Hann sér þá að kvenmaður gengur tvisvar sinnum kringum dyrnar. Síðan kemur hún inn, gengur að Árna og heilsar honum með kossi. Hann gefur lítinn gaum að henni og heldur hana komna af landi ofan, en eigi þekkti hann hana. Síðan tala þau nokkur orð saman og gengur hún við það út aftur, en hann sofnar. Enginn maður varð hennar var annar en Árni. Nokkrum tíma síðar bar svo við einn sunnudagsmorgun að hann gekk út því þeir verða það að gjöra til þess að vita hvort nokkurt útlent skip sæist sökum þess að þar hefur oft borið við að þess konar skip hafa gletzt við róðrarbáta; og í þetta skipti átti Árni að fara út. Hann gengur upp á hæð eina og staldrar þar við; heyrist honum þá eigi alllangt frá sér hringt klukkum, einni eða fleirum; hann gengur á hljóðið og hættir það smásaman, og staldrar hann þá við stundarkorn og heyrir nú aðra hringingu; hann gengur þá aftur á hljóðið og finnst honum hann sé farinn að nálgast það; stendur nú við unz hann heyrir hina þriðju hringingu. Þá gengur hann enn á hljóðið og kemur hann loks að kirkjudyrum og reisuglegum bæ þar sem honum og öðrum hafði áður sýnzt klettar einir.

Í kirkjunni sér hann fólk margt og prest í messuskrúða. Sömu sálma heyrði hann sungna þar sem vor á meðal; stígur prestur í stólinn eins og vandi er til þá áður hafði verið hringt um Credo og lagði út af hinum vanalega texta. Og að endaðri bænagjörð stígur hann úr stólnum og syngur: „Heiðrum guð föður himnum á.“ Síðan er margt fólk til altaris. En á meðan útdeilingin stendur yfir er sungin Jesú minning og endist ekki til; er hún þá aftur byrjuð og sunginn meiri partur hennar; og að svo búnu lýsir prestur blessan yfir söfnuðinn. Allt fór þar reglulega fram, en allra seinast var sungið: „Þú hefur sigrað synd og deyð.“[1] Á meðan allt þetta fór fram beið Árni fyrir utan dyrnar; en aldrei fór hann inn í kirkjuna. Síðan kemur presturinn út og söfnuðurinn á eftir honum; og er fólkið þakkar presti kenninguna gjörir Árni eins og tekur í hönd presti og tók hann því góðlátlega, en æði mikilfenglegur var hann í augum Árna og var hann að sjá nokkuð við aldur. Hann gengur þegar inn í bæinn. Nú smátínist fólkið út úr kirkjunni og kemur þá út meðal annara kona ein öldruð, en mjög höfðingleg, og fylgdi henni dáfríð jungfrú, mjög vel búin og kurteisleg; og hefur Árni sagt að hún hefði borið af öllum þeim er hann hefði séð, að andlitsprýði og góðu yfirliti. Árni þekkti hana að hún var hin sama stúlka er kom til hans í búðina. Hún víkur að Árna kunnuglega og heilsar honum með kossi, tekur í hönd hans og biður hana koma með sér í bæinn. Árni er tregur til þess; gengur hún þá inn og kemur að vörmu spori út aftur með messuvín í glasi og biður hann drekka. Hann þáði það. Síðan nauðgar hún honum inn í bæ með sér; koma þau í stofu mjög skrautlega prýdda; situr presturinn þar við borð og kona hans. Stúlkan lætur Árna setjast þar og sezt síðan sjálf. Nú var matur borinn á borð; sölt súpa, fornt kjöt, grjónagrautur og brauð, og neyttu þau öll þar af er við borð sátu, prestur, kona hans, stúlkan og Árni. Matur var þar yfirfljótanlegur fram borinn. Enginn yrti orði á Árna nema jungfrúin; og er máltíð var úti leiðir hún Árna út, fylgir honum á veg og biður hann mjög að koma þangað oftar og eiga sig; segir hún honum að faðir sinn sé prestur yfir öllum eyjunum og sæmilega ríkur að fé, en hún sé einbirni. Árni þverneitar því að hann vildi fara til hennar. Hún segist vita hvað honum þyki að: „Þú ert hræddur um,“ segir hún, „að við munum djöflar vera og trúum eigi á guð, en komdu til mín og skal ég sýna þér trúarbrögð okkar; en líki þér þau þá eigi skaltu mega heill að öllu héðan komast, en ég spái að þér muni vel líka er þú hefur séð þau.“ Miklu fleiri umtölur hafði hún fyrir honum. Nú skilja þau við þetta í það sinn, en hún kemur til hans oftar og ámálgar jafnan hið sama.

Tvisvar var hann við kirkju á eyjunni og kvaðst hann í hvert skipti hafa séð hana í kirkjunni og jafnan hafi hún leitt sig til borðs eftir messu, og hefði þar allt farið fram eins og áður er getið um, en stúlkan fylgt sér úr garði, gefið sér brennivín og beðið sig jafnan að fara til sín. Eitt sinn spurði hann hana að nafni og kvaðst hún Björg heita, en faðir sinn Finnur. Síðan fer Árni úr eyjunum er sá tími var úti er vant var að vera þar til útróðra og ætíð er áður en nótt dimmir; því sagt er að eigi sé þar friðsamt um svartnætti. Hélt Árni að hann mundi nú með öllu sloppinn við eftirsókn Bjargar er hann var kominn heim til föður síns. En eigi hefur hann lengi verið áður en Björg kemur til hans einn dag og heilsar honum mjög vingjarnlega og segir: „Nú máttu sjá hvað kæran ég hef þig því að faðir minn hafði brauðaskipti við prest þann er hér var, og flutti sig burt úr eyjunum svo ég skyldi vera nær þér; getur þú nú séð á þessu hve miklu ég má ráða hjá föður mínum; komdu því með mér og farðu burtu ef þér eigi líkar allt hjá mér.“ Hann taldist undan með öllu móti. „Sit þú litla stund hjá mér,“ segir hún þá. Hann gjörir svo og skilja þau eftir það. Enginn sá hana er hún kom til hans nema sjálfur hann. Fer nú svo fram lengi að hann situr hjá henni stundarkorn á degi hverjum.

Þá var það eitt sinn að hann biður föður sinn að láta sig í burtu í mannaskiptum, en faðir hans vildi það eigi og kvaðst eigi mega missa hann frá slætti því hann hefði eigi fleiri manna en Árna og kaupamann einn. Einn dag er þeir báðir voru að slá í túninu sjá þeir báðir hvar Björg kemur gangandi; segir þá Árni við kaupamanninn í skopi: „Hún mun vilja finna þig sú arna.“ „Fjarri fer því,“ segir hann, „heldur mun hún vilja finna þig.“ Í þessu kemur stúlkan til Árna og meðan hún heilsar honum hverfur hún hinum manninum. Þá sér Árni á henni nokkurn reiðisvip, en óðar er hún tók hann tali verður hún mjög blíð við hann. Eigi er hægt að telja hve oft hún kom til hans, en oft var það þrisvar á dag.

Eftir sláttinn býst kaupamaðurinn burtu og lá leið hans yfir fjall eitt mjög hátt þar sem mælt var að tröll áður fyrri hefði valdið reimleika. Árni býðst til að fylgja honum og ríða þeir svo upp á fjallið, skildu síðan, og hverfur Árni aftur. Í einum stað þar sem leið lá gegnum þrengsli nokkur verður fyrir honum skessa, og sér hann nú þann kost beztan að ríða sem örðugast fram hjá henni; en meðan hann gjörir svo stundi hún við, og kvaðst Árni hafa tekið það sem fyrirboða fyrir ógæfu þeirri er fyrir honum lá. Þegar hann kemur niður af fjallinu kemur Björg í móti honum; sitja þau þá nokkra stund saman og skilja með blíðu.

Einn laugardagsmorgun um haustið snemma býst Árni til að leita að fé og ætlar að koma heim aftur hið fyrsta; verður honum óleitarsamt og finnur féð eigi fyrr en eftir langa mæðu og er þá kvöld komið. Hann gengur þá heim og rekur féð hart á undan sér; hafði hann lítið prik í hendi. En er hann á skammt að túninu kemur Björg til hans, heilsar honum blíðlega og biður hann sitja litla stund hjá sér. Hann neitar því harðlega og er styggur við hana því hann þykist féð of seint fundið hafa; vill hann nú frá henni fara. Hún biður hann því betur að setjast niður litla stund, en hann anzar henni engu. „Ég verð þá að taka til minna ráða,“ segir hún, gengur að Árna og tekur hann í fang sér og ber hann sem barn væri og það þótt Árni sé talinn með stærri mönnum. Hann getur með engu móti losað sig úr fangi hennar, en lætur hana hafa sem mest fyrir. Hún ber hann langan veg þar til hann hyggur hana þegar komna heim til sín. Hann brýzt nú um sem mest hann má, en hún mæðist svo hann losnar úr fangi hennar og leggur með stafnum á lær henni og veitir henni mikið högg. Hún gengur þá hölt frá honum og stundi við þungt, talar síðan til hans þessum orðum þar sem hann stóð í moldarflagi einu: „Þú skalt eigi fet komast úr flagi þessu meðan ég tala við þig nokkur orð. Þú skalt svo veikur verða að enginn skal þekkja né læknað geta veikleika þinn. Ef nokkur reynir til þess skal þér æ versna. Reyni nokkur kunnáttumaður að lækna þig skal þér ósegjanlega versna. Lifðu nú við þetta og mun þér ei betur líka en þó þú hefðir verið hjá mér og átt mig.“ Árni leitaðist við á meðan hún mælti þetta að losa sig burtu úr flaginu, en gat ekki, því magnleysi gagntók hann. Skildu þau svo í það sinn. Hann fer síðan heim með féð og er dapur í bragði og máttlítill; hann gengur til rúms síns, en neytir einkis matar og mjög lítið sefur hann um nóttina því undarlegur veikleiki sótti á hann, en eigi gat hann sagt hvað að sér gengi.

Sunnudagsmorguninn eftir fór hann með veikum burðum á fætur og reið til kirkju; átti hann sæti undir prédikunarstól að ofanverðu. Um hinn fyrri hluta prédikunarinnar vissi hann eigi af sér, en er hann vitkaðist sá hann blóðtjörn mikla er upp úr honum hafði komið; komst hann svo nauðuglega heim aftur. Menn spurðu nú um orsök til veikleika hans, en hann vildi hana engum segja. Einhverja nótt kemur til hans prestur sá er hann hafði séð á eyjunni og mælti: „Það fór illa að þú hlauzt illt af mínum, enda var það eigi minn vilji hvernig dóttir mín sótti eftir þér, og vil ég því hjálpa þér ef ég get. Hefur þú nokkuð glas hjá þér?“ „Nei,“ segir Árni; „en ég á það í útihúsi í kistu.“ Prestur biður hann að fá sér lyklana. Árni gjörir svo og að því búnu kemur presturinn aftur, færir honum lykla hans og segir honum að glasið sé fullt í kistu hans og skuli hann drekka allt úr því að morgni er hann komi á fætur. Um morguninn dregst Árni á fætur og gætir í kistu sína, finnur glasið fullt með eitthvað hvítt og þunnt sem vín væri og efar sig nú hvort hann eigi að þora að drekka úr því, og er honum kemur til hugar að hann sé dauður hvort heldur sé setur hann glasið á munn sér og tæmir. Hann hressist þegar nokkuð og getur sofnað og verður hann því feginn.

Eftir þetta kemur faðir hans honum, þótt Árna væri nauðugt, til kunnáttumanns nokkurs þar í sókninni. En óðar en hann er þangað kominn hefur hann hvorki frið né ró; gengur ávallt blóð upp úr honum, og fer svo um tíma að hann er þar og versnar honum meir og meir.

Það bar til einhverju sinni að Árni er að reykja tóbakspípu og hefur dregizt út fyrir dyrnar; hann missir þá ráðið svo hann veit eigi hvað um sig líður. Fólk saknar hans og fer að leita hans; finnst hann loks morguninn eftir langt frá bænum; liggur hann á grúfu og hafði blóð mikið gengið upp úr honum, en pípa hans lá í brotum við hlið hans. Því næst var hann færður til næsta bæjar þar sem lögréttumaður nokkur bjó. Árni biður þar gistingar um nokkurn tíma, en því var neitað í alla staði. Lögréttumaðurinn gefur Árna brennivín svo hann hressist nokkuð; en í því leið yfir Árna eftir vana og litlu síðar tekur blóð að renna upp úr honum svo að öllum stóð ótti af. Lögréttumaðurinn kvaðst eigi geta lofað honum þar að vera sökum þess sér ofbyði veikleiki hans. Nú raknar Árni við og sér hvar hinn gamli vinur sinn, presturinn, kemur og segir hann við Árna: „Bið þú að lofa þér að vera hér, en far eigi til kunnáttumannsins aftur.“ „Ég bað um það,“ segir Árni, „en fékk eigi.“ „Biddu um það aftur,“ segir prestur; „ég skal sjá til með þér að þú fáir það.“ Árni reynir þá til í annað sinn og fær jáyrði. Enginn sá prestinn nema Árni. En er hann hafði verið þar um tíma kemur presturinn til hans og mælti: „Þegar þú færð stóru köstin skaltu biðja konu lögréttumannsins að halda að brjósti þér og muntu hafa hægð á meðan.“ Árni gjörir svo og hafði léttir af þessu; en eigi komst konan ætíð til að vera hjá honum.

Einn morgun liggur hann sem oftar í sænginni og er þá með bezta bragði; sjá þá allir að kona kemur að rúminu er hann liggur í og talar hún til hans þannig: „Ekki skal þér af þessu batna.“ Síðan gengur hún út. Árni þekkti þar hina fornu vinkonu sína Björgu. En er hún gekk út varð Árni svo aumur að menn hugðu það verða hans síðasta.

Daginn eftir kemur presturinn til hans og segir: „Erfitt gengur mér að hjálpa þér, Árni.“ Hann fær honum bók og bannar honum að láta nokkurn mann sjá og segir honum að hafa hana á brjósti sér. Árni gjörir svo og hefur á meðan nokkra hægð. Einn dag sefur hann og liggur bókin hjá honum. Bóndi tók þá bókina og les í henni; var eigi annað í henni en bænir nokkrar og fáeinir ókenndir stafir. Árni vaknar í þessu og heimtar bókina og fær hann hana. Skömmu síðar kemur presturinn til Árna og segir: „Illa geymdirðu bókina, Árni.“ Síðan tekur hann hana, sker úr henni tvö blöð og segir Árna að geyma þau undir höfði sér og gæta þess að enginn sjái. Síðan hverfur hann brott.

Daginn eftir sefur Árni; sjá þá allir að Björg kemur upp á pallinn, seilist eftir blöðunum og fer með þau fram í eldhús og kastar í logann. Árni vaknaði er hún fór ofan og fær þá ógurlegt kast svo blóð flýtur allt í kringum hann. Skömmu þar eftir kemur prestur til hans og segir: „Illa geymdir þú blöðin; láttu nú leita í öskunni og mun eitthvað finnast af þeim.“ Hann gjörir svo og fundust stafirnir, en hitt allt var brunnið; geymir Árni þeirra betur síðan.

Einn dag er hann liggur í rúmi sínu og er með glaðasta bragði kemur Björg að húsdyrunum og segir: „Ekki skal þér það að liði verða þó faðir minn vilji hjálpa þér.“ Árni svarar: „Ég vildi að guð léti þig reyna annað eins áður en þú deyrð; bið ég þess eigi af hatri, heldur til þess þú sjálf megir vita hvað ég hef að bera þinna vegna.“ „Þetta skaltu nú fyrst bera,“ segir hún; „þú hefur bakað þér það sjálfur; og eigi skal faðir minn geta hjálpað þér.“ Í þessu bili kemur presturinn og fer hann inn fyrir hana í húsið og segir: „Fyrst þú ferð svo illmannlega að þessu þá skaltu nú gæta að sjálfri þér, og skulu umtölur þínar ekkert mein gjöra honum.“ Hún gengur þá út og sér Árni hana eigi síðan.

Presturinn staldrar nokkra stund hjá Árna og upp frá því fer honum að létta svo hann kemst á fætur. Gjörir hann þá boð eftir prófastinum er var prestur hans að hann taki sig til sakramentis. Hann fer nú til kirkjunnar mjög veikburða; það var á pálmasunnudag, og hittir prófasturinn hann og kveðst eigi þora að taka við honum með öðru fólki þar eð hann kynni að verða ófær, en sagðist mundi gjöra það eftir messu. Að liðinni messu fer fólk af stað, en prestur kallar Árna inn í kórinn og kveðst eigi veita honum sakramenti nema hann segi sér eina spurningu. Árni játar því ef hann geti. „Hvort er það góður andi eða vondur sem kemur til þín í prestslíki?“ segir prófastur. „Af góðum rökum er hann mér til hjálpar sendur,“ segir Árni. „Það er djöfullinn,“ segir prófastur. Í þessu sér Árni að fornvinur sinn presturinn kemur og sezt í hornið fyrir innan Árna og minnir hann á hvað svara skuli svo prófastur hefur nóg að gjöra. Seinast segir prófastur að hann eigi vilji taka við honum meðan hann stæði á því að þessi prestur væri af góðum rökum og kvaðst skyldi fyrirbjóða öllum prestum í sínu umdæmi að veita honum aflausn. Árni kvaðst mundi fá það hjá öðrum presti þótt hann leyfði eigi. Svo gekk faðir Bjargar út. Prófastur og Árni skilja stuttlega og fer Árni heim.

Morguninn eftir áður en fullbjart er orðið kemur maður á gluggann uppi yfir Árna; er sá sendur frá prófasti og segist hann nú vilja veita honum sakramenti hvort heldur skyldi vera á nóttu eða degi. Árni spyr hvaða umbreyting hafi orðið á svo stuttum tíma, en það kvaðst maðurinn eigi vita, „en ekki mun prófasti hafa orðið svefnsamt í nótt; og skaltu láta hann vita af er þú vilt.“ Árni játar því og á skírdag gjörir hann prófasti boð að koma og þjónusta sig. Hann kemur þegar. Árni spyr hver umbreyting hafi orðið á fyrirætlun hans er hann svo skjótt og ótilkvaddur breytti henni. Prófastur svarar: „Ég hafði enga ró um nóttina eftir að við töluðum saman í kirkjunni fyrir því að presturinn þinn kom til mín svo að ég varð þrisvar að fara á fætur um nóttina; ég talaði eigi rétt orð þar sem hann talaði tíu, enda skal ég aldrei meir kalla hann djöful.“ Síðan veitti prófastur Árna aflausn og tók honum nú stórum að batna.

Einu sinni sem oftar kom presturinn til Árna og segir við hann: „Ég get með engu móti gjört þig heilan veikinda þinna nema þú ferðist héðan af Breiðabólstað í Fljótshlíð og meðtakir sakramenti af prestinum þar, séra Halldóri Pálssyni,[2] því þar er kaleikur sem álfafólk hefur gefið kirkjunni og svartur blettur á botninum á honum. Af honum verður þú vínið að drekka og þá mun þér batna að fullu; skaltu nú fá þér seðil hjá prófastinum og skrifaðu bréf sýslumanni Víum sem ætlar að ferðast til alþingis í sumar; biddu hann að láta þig vita hvenær hann ríður á þing og fylgstu suður með honum.“

Síðan fer Árni að finna prófast, biður hann um prestsseðil sinn og segir honum fyrirætlan sína. Þá svarar prófastur: „Þó það hafi góður andi verið er áður hjálpaði þér þá er þetta djöfull og mun hann ætla að drepa þig á leiðinni þar eð þú ert svo lasburða að þú kemst varla bæja á milli.“ Samt sem áður fær Árni seðilinn. En um nóttina eftir kemur presturinn til Árna og segir: „Illa gjörir prófastur að hann kallar oss djöfla og mun guð einhvern tíma á einhvern hátt sýna honum að hann lýgur, en þú Árni skalt fara af stað því Víum er þegar kominn á leið og hefur eigi látið þig vita; hlýt ég að fylgja þér á veg þótt ég eigi örðugt með það til þess þú komist af stað.“ Um morguninn fer Árni af stað, hittir Víum og fer með honum að Odda og jafnvel upp á þing og kemur loks að Breiðabólstað og meðtekur þá sakramenti af kaleik þeim er prestur hafði sagt honum frá og mælt er um að enginn viti hvaðan sé. Varð hann nú skjótt alheill, fer austur aftur og finnur vin sinn prestinn. Hann segir honum þá þau tíðindi að Björg sé önduð og hefði hún þegar hann meðtók sakramentið á Breiðabólstað tekið sótt ógurlega þunga, legið í viku og haft varla frið til að ákalla guð um hjálp og líkn.

Nú segir Árni að prestur sé búinn að missa fyrri konu sína og hafi átt aðra og sé fluttur til eyjanna þar sem hann áður var; segist hann oft koma þar í eyjuna, sjá húsin og kirkjuna og vera þar við kirkju. En það er frá prófastinum að segja að hann hreppti það mótlæti að dóttir hans ein lagðist í svo undarlega sótt að enginn gat liðsinnt henni.

Eitt sinn bað Árni prestinn að sýna sér biblíu álfa. Prestur lét það eftir honum og virtist honum sú biblía vera að öllu leyti eins og hin íslenzka biblían. En það að álfar eru fráskildir mönnum á að vera komið af því, er nú skal greina: Eigi langt frá bústað Adams og Evu eftir fallið rann vatn nokkurt og var Eva þar eitt sinn að þvo börnum sínum sem þá voru mörg orðin. En er hún átti aðeins eftir að þvo tveimur eða þremur kallaði guð til hennar, en hún varð hrædd og heldur þeim börnum sem þvegin voru hjá sér, en skilur hin óþvegnu eftir. Þá sagði guð til hennar: „Áttu ekki fleiri börn en þetta?“ En hún neitaði því fyrir hræðslu sakir. Þá sagði guð: „Það sem á að vera hulið fyrir guði skal og vera hulið fyrir mönnum.“ Síðan hvurfu hin óþvegnu börn Evu svo hún sá þau aldrei meir. Ekki urðu þau mörg allt til syndaflóðsins; meðan á því stóð voru þau í helli einum og lét guð sjálfur fyrir dyrnar. Síðan hefur kynslóð þessi mjög fjölgað. Fólk þetta hefur hið sama lögmál sem vér; það trúir á endurlausnarann og heilagan anda allt eins og vér. Árni vildi fá biblíu þeirra til kaups, en fékk eigi. Hann segir að prófastur þessi sé bezti vin sinn og gjöri sér margt gott.

Það að Árni var veikur með undarlegum hætti vissu þeir sem nálægt honum voru og enginn þótti slíkan veikleika séð hafa; stundum sáu menn og Björgu koma til hans, en prestinn margsinnis. En hitt kunnum vér eigi að segja hver það var í raun og veru sem til hans kom, og héldu margir það vera fjandann. Árni sagðist vilja koma öðrum í kunningsskap við prest þenna og kvað hann vera mann góðmannlegan, hægan og ljúfan, en væri þá orðinn aldraður. Og endast svo saga þessi.

  1. Það er 13. versið úr 19. sálmi í Passíusálmunum.
  2. Hann var prestur á Breiðabólstað frá 1728-1749