Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sagan af Móðari í Móðarsfelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Móðari í Móðarsfelli

Austur undan Valadal í Skagafjarðarsýslu stendur hnúkur hár sem kallaður er Valadalshnúkur; utan í honum stendur fell dálítið og er kallað Móðarsfell; þar í er og hellir sem kallaður er Móðarshellir og dregur hvorutveggja nafn af sögu þeirri er nú skal segja:

Á Víðimýri bjó prestur fyrir eina tíð; hann átti dóttur er Sigríður hét; hún var væn og vel að sér. Hún var jafnan í seli á sumrum og vinnukona með henni er Margrét hét. Einhvern jóladag ætlaði prestur að syngja messu í Glaumbæ og fór snemma um morguninn. Þær Sigríður og Margrét fóru síðar og ætluðu að vera við messu í Glaumbæ, en er þær voru komnar nokkuð á leið rak á þær myrkviðursþoku með kafaldi; villtust þær þá og vissu ekkert hvað þær fóru. En er þær höfðu lengi gengið stingur Sigríður fótum fyrir og segir að þetta tjái eigi lengur og kvaðst vilja strengja heit og vita hvert hríðinni þá ekki linni. Strengir hún þá þess heitis að eiga ekki annan mann en þann er Móðar heiti. En jafnsnart sem hún hafði sleppt orðunum iðraðist hún fljótfærni sinnar, en undireins stytti upp hríðinni og voru þær þá komnar út fyrir Glaumbæ. Snéru þær þá við og er þær komu að Glaumbæ var verið að syngja útgöngusálminn. Um kvöldið héldu þær heim með prestinum.

Nú líður til þess að flutt var í selið sumarið eftir; var þá Sigríður nauðug að fara í selið, en með því faðir hennar bauð henni að fara varð hún að hlýða. Þær fluttu sinn daginn hver úr selinu Sigríður og Margrét, en einhvern dag er Margrét var heim farin, en Sigríður var að þvottum við sellækinn, kemur til hennar maður harla hávaxinn og heilsar henni blíðlega. Sigríður tekur dauft undir. „Tekurðu ekki undir við mig,“ segir aðkomumaður, „það mun þó svo fara að þú munt hljóta að mæla við mig þar þú hefur strengt þess heit að eiga engan mann annan en þann er Móðar heiti, því ég er sá eini á Íslandi sem ber það nafn – og svo þú vitir gjör um hagi mína skal ég segja þér að móðir mín er skessa og býr í felli einu utan í Valadalshnúk; hún villti til sín mennskan mann vestan úr Vatnsdal og gat mig við hönum; hefur hún kennt mér fjölkynngi, en hann kenndi mér kristna trú og ýmsar íþróttir; er hann nú dáinn fyrir nokkrum árum. Móðir mín hefur hyllt til mín níu meyjar, en drepið allar, þar henni hefur ekki þótt nein mér samboðin. Hún gerði þér bylinn á jóladaginn og með fjölkynngi sinni gerði hún þér það að þú strengdir þessa heitis, og er nú bezt að láta sér vel lynda það sem komið er.“ Sigríður var stutt í svari og mjög afundin, og er hann sá að hann ei fékk blíðkað hana kvaddi hann hana, en bað hana að vera heima daginn eftir, því þá mundi hann aftur heimsækja hana.

Daginn eftir var Sigríður eigi með sjálfri sér og kvartaði um veikindi; varð þá Margrét að fara heim aftur með flutninginn, en Sigríður var eftir í selinu. Kemur þá Móðar þar og segir henni að móðir sín ætli að heimsækja hana á morgun, og biður hann hana að hræðast ekki þó henni sýnist hún ófrýnileg og stórskorin; hún muni biðja hana um skyr og skuli hún gefa henni í tveimur hálfvættar kollum; muni það verða mátulegt, og þó hún beri að henni sveðju sína skuli hún ekki hræðast. Síðan fer Móðar á burt.

Daginn eftir var Sigríður enn heima í selinu; kemur þá skessan; var hún bæði stór og illileg. Hún heilsar Sigríði; hún tók kveðju hennar og stóð á selþrepskildinum og veik ekki þaðan, því svo hafði Móðar sagt henni. Kerling biður hana að gefa sér að smakka skyr. Sigríður vísar henni á kollurnar sem hún áður hafði sett fullar af skyri út á hlaðið og fær henni stóra ausu til að borða með. Kerling hámar í sig skyrinu þar til ekki var eftir nema í löggunum á annari kollunni; teygir hún sig þá upp og segir: „Mátulegt er fram borið.“ Síðan tekur hún upp stóra skálm og rekur fyrir brjóst Sigríði og segir um leið: „Ertú fær um að verða tengdadóttir mín?“ En er hún sá að Sigríður bliknaði eigi snýr hún frá og segir: „Þú ert ekki smáhrædd kinda mín!“ Labbar hún síðan upp eyrina fyrir ofan selið og er þung á sér, en þar er stór steinn á eyrinni og rak hún í hann tærnar, féll við og sprakk. Var þá Móðar þar kominn og dregur flikkið í ána og kvað svo að orði við Sigríði að kunnátta sín hefði kunnað að vera í verki með að stytta henni aldur. Kveðst hann nú ekki ætla oftar að koma í selið, en á aðfangadagskvöld jóla segist hann ætla að koma að Víðimýri og beiðast gistingar.

Líður nú af sumarið og veturinn fram að jólum. En á aðfangadagskvöldið er barið að dyrum á Víðimýri; kemur fólk út og þykir gesturinn heldur hávaxinn. Hann biður að skila til prestsins að hann biðji gistingar. Húskarl einn fer þá innar og segir presti að kominn sé maður er beiðist gistingar, en hann sé svo stór að hann muni ekki komast inn í húsin. Prestur segir að þá sé að vísa honum á burt, en Sigríður prestsdóttir greip þá fram í og segir að hann muni varla byrja á að úthýsa á aðfangadagskvöldið. Síðan var gesturinn látinn inn koma, og þó hann væri hávaxinn leizt presti vel á hann; hann var þokkalega búinn, kurteis í framgöngu og skarplegur að yfirlitum. Síðan tóku þeir tal saman og var gesturinn skynsamlegur í viðræðum. Kom svo að prestur bauð honum þar að vera um jólin og þá hann það. Áður en þeir skildu sagði hann presti allt frá högum sínum og bað dóttur hans sér til handa, en þó presturinn hefði ætlað dóttur sinni annað gjaforð skaut hann þessu máli til hennar með því hann sá líka að dóttur sín mundi gjörningum beitt sem ekki yrði fyrir komizt. Sigríður tók þessu máli vel og var ákveðin um vorið brúðkaupsstefnan.

Um vorið giftust þau Móðar og Sigríður og bauð þá prestur Móðari jörð til ábúðar í Skagafirðinum, en hann vildi heldur hírast í helli sínum og flutti hann Sigríði þangað. Hún undi þar vel hjá honum og hafði allt er hún vildi hendinni til rétta. Að ári liðnu kom Móðar ofan að Víðimýri með barn til skírnar en sem dó skömmu síðar, svo fór og með annað, en að því þriðja dó Sigríður, smíðaði Móðar utan um hana og lagði barnið í kistuna hjá henni og bar síðan ofan að Víðimýri. Eftir það dvaldist hann með presti um hríð, en var jafnan harmandi, og einhverju sinni fór hann til hellirs síns og kom eigi aftur. Fór þá prestur að forvitnast um hann og sá þá að grjóti var hlaðið að hellirsmunnanum, og er hann komst inn fann hann þar Móðar dauðan. Hann flutti þá líkið úr hellirnum og lét jarðsyngja að Víðimýri, en allt fémætt flutti hann úr hellrinum heim til sín og hefur þar eigi verið byggð síðan.