Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sagan af steini Þrúðuvanga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Steini Þrúðuvanga

Fyrir austan var bær sá er á Þrúðuvangi hét. Þar bjó sá bóndi er Steinn hét. Kona hans hét Guðrún, en börn hans voru Illugi og Sigríður. Steingrímur hét sóknarprestur hans og bjó á Steingrímsstöðum. Engi þótti Steinn trúmaður vera enda var þetta snemma mjög í kristni hér á landi, og loddi þá mjög forneskja við þó ei bæri á. Þá voru sungnar tíðir jólaaftan sem lengi hélzt við síðan. Guðrún kona Steins var guðhrædd kona; hún sótti vel kirkju, en bónda var lítt um það gefið. Einn jólaaftan mælti hún til við hann að hann færi með sér til tíða því þá var veður dimmt, en engi annar vaxinn karlmanður til fylgdar. Hann tók þessu illa, en kveðst þó mundi fylgja henni á Steingrímsstaði, en eigi við tíðir verða. Þau fóru þá þrjú saman, Steinn, Guðrún og Illugi sonur þeirra. Þegar þau voru komin að garði á Steingrímsstöðum skildu þau; snéri Steinn heimleiðis, en þau héldu áfram mæðginin.

Daginn eftir komu þau heim aftur Guðrún og Illugi. Bóndi lá þá í rekkju er þau komu. Guðrún laut ofan að honum, en hann hreyfðist eigi; aldrei var hann þessu vanur. Hún spurði hvort honum væri illt. „Lítið er um það,“ segir hann, „en eigi veit ég hvort ég hefði svo fljótt aftur horfið í gærkveldi ef ég hefði þá vitað það sem ég veit nú.“ Guðrúnu þótti þetta undarlegt, en eigi fékk hún þó meira um þetta að vita það skipti.

Leið nú fram til næstu jóla svo ekki bar til tíðinda. Þenna jólaaftan var hart veður og fjúk. Guðrún mælti þá við bónda sinn að hann mundi fylgja sér til kirkju. Hann gerði það, en var þó fálátur mjög. Þegar þau voru komin til kirkjunnar bað hann Illuga son sinn að fara heim með sér aftur. „Er það að sköpum að þú lifir fleiri jól, en svo er nú að ég mun ei lengi lifa; máttu því hafa gagn af að sjá nokkuð, en ég eigi.“ Illugi fór nú heim aftur með föður sínum og var þó hræddur. Þeir komu heim og að skemmu er stóð þar á hlaðinu. Steinn gekk þegar inn í skemmuna og Illugi eftir honum. Þar biðu þeir litla stund. Þá sýndist Illuga stafninn fara undan skemmunni; sér hann þá út og lítur til austurs. Sér hann þá hvar koma tveir menn hvítklæddir og bera kistu eina milli sín. Dúkur var yfir kistunni og sá ei í gegnum hann. Þeir koma nú inn í skemmuna og námu þar staðar; drifu þá að þeim andar margir úr öllum áttum. Spyrja þeir hverjir aðra tíðinda og gekk það alla nóttina. Illugi heyrði að þeir töluðu um góða menn og vonda og einkum börn. Þá nefndu þeir Stein föður hans og lágu þeim vel orð til hans. Það fann Illugi á tali þeirra að þeim geðjaðist bezt að illum mönnum og óguðræknum, en undu illa góðum siðum og guðlegum. Sögðu þeir að á næstu jólum mundu þeir bera Stein bónda í kistu sinni. Illuga þótti standa kaldur gustur af piltum þessum og þótti honum ill sýnin. En er minnst varði gjörðist gnýr mikill og niðamyrkur. Þá var Illuga bilt við og féll hann í óvit. Raknaði hann við aftur og var þá í rúmi sínu því faðir hans hafði borið hann þangað. Steinn dó litlu eftir atburð þenna og þótti mönnum ekki allt skapfellegt um hann.

Illugi sagði frá atburðinum og því er hann hafði heyrt og séð. Könnuðust menn þá við anda þessa og það voru þeir er menn kalla jólasveina. Ganga þeir um byggðirnar um jól öll og eru þá illir viðfangs, ránsamir og hrekkjóttir, einkum við börn. Eru þeir því oft hafðir til að hræða börn með sem Grýla. – Illugi lét sér sýnina að góðu verða eins og faðir hans hafði til ætlað. Varð hann gamall maður, kirkjurækinn og hélt vel trú sína. Aldrei sá hann jólasveina hvorki fyrr né síðar og aldrei gerðu þeir honum mein né móður hans. Enda birtast þeir sjaldan og eigi nema óguðlegum mönnum, en illt er að komast í kistu jólasveina.