Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sakamaðurinn og huldufólkið
Sakamaðurinn og huldufólkið
Það var einu sinni bóndi vestast vestrá landshorni. Hönum vildi það til að hann átti barn með dóttur sinni, strauk so austast austrá landshorn, hitti þar fyrir ríkan bónda og beiddi hann að taka sig so enginn vissi af, það mundi verða spurt ettir sér um allar sýslur; so hann fær það. Er hann þar fram eftir vetrinum og ber þar ekkert til tíðinda. Bóndanum líkaði vel við hann.
Þegar fer að líða undir jólin þá fóru hjónin að verða fálát. Hann spurði þau að af hvurju þau væru dauf. Þau sögðu að það væri sá ágalli hér á bæ að það mætti ekki hvorki menn né skepnur vera heima á jólanóttina, það sé allt drepið. Hann biður þau að lofa sér að vera heima; þau vilja það ekki. Hann hættir ekki fyr en þau lofa hönum það, so hann biður þau að gefa sér fimm kerti og hafa eitt vaxkerti. So fór allt til kirkjunnar, en hann var heima. So kveikir hann ljós og sópar allan bæinn vel og vönduglega, býr um öll rúmin vel og vönduglega, setur so eitt kertið í bæjardyrnar, annað í göngin, þriðja á gólfið, fjórða á pallinn og vaxkertið á borðið í húsinu. So tekur hann hamar og slær þilju úr fyrir ofan hjónarúmið og smeygir sér milli þils og veggja og setur so þiljuna í aftur. Þegar hann er búinn að vera stundarkorn heyrir hann undirgang. Komu þá inn sex karlmenn og segja það sé nýtt að það sé búið að kveikja, þeir þurfi ekki að taka af kertunum sínum. Þeir taka rakka sem liggur á gólfinu og henda hönum úr öðru gaflaðinu í annað þangað til hann er dauður. So búa þeir borð og bekki á gólfinu, so setast þeir. Þá heyrir hann ennþá meiri undirgang; þá komu inn tólf og þeir ryðjast upp á pallinn og búa þar til borð og bekki. So heyrir hann enn meiri undirgang og þá koma inn átján og er það nærri því allt kvenfók og ruddist allt inn í húsið og gerði þar borð og bekki og það var allt með miklri prakt og virðingu, og seinast kom strákur inn á gólfið og hann átti að passa þegar dagur væri kominn, og þeir sem sátu á gólfinu gáfu honum bita af borðum. So stendur það upp frá borðum og fer nú að dansa innan um baðstofuna, og er nú sona dansvísan:
- Sá sem hefur skapað sól og tungl í sínum hring
- á þann kóng vér allir trúum
- í undirbing.
Það er að skipa stráknum að gá hvort dagur sé kominn, hann fer út og segir það sé ekki kominn dagur. Þá segir maðurinn sem er milli þils og gátta: „Það lýgur þú, það er víst kominn dagur,“ og lamdi með hamri í þilið. Þá varð huldumönnum illt við og allt stökk út úr bæ og hann á ettir og náði skelfing fallegri skikkju af einni stúlkunni. Hún var krókuð um hálsinn á henni og slitnaði. Það ljómaði dagur og honum sýnist allt stökka oní tjörn á túninu. So er hann að ganga um gólf þegar kirkjufólkið kemur. Vinnukonan er send ettir skemmulyklinum inn; hún kemur ekki aftur; so fór konan. Hann sagði hún skyldi ekki bregðast ókunnuglega við þó bjart í baðstofunni væri; hún kemur ekki heldur. So fara þeir inn og þá er konan að styrma yfir vinnukonunni, og lá í öngviti so það var dreypt á hana. So batnaði henni. So skipti sakamaðurinn öllu þessu, fátækir það sem var á gólfinu, bóndinn það sem var á pallinum, en kóngurinn það sem var í húsinu, fyrir það að hann gæfi sér og dóttur sinni líf, en hann átti gullbikar og gullstaup og skikkjuna. So var öllum óhætt að vera þar heima á jólanóttum, en þau fengu bæði líf.
Og endar þessi saga.