Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sigmundarhraun

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar ríka Margrét bjó á Eiðum (sem ýmsar sögur fara af) hafði hún ítök og aðdrætti til og frá og er sagt að hún hafi haft búsmala sinn út á Hraundal, það er fjallvegur milli Hjaltastaðaþinghár og Loðmundarfjarðar. Einn af smölum hennar hét Sigmundur. Hraun er á dalnum og beitti Sigmundur jafnt fyrir neðan sem ofan það, því hann hélt sér allan dalinn jafnheimilan. Eitthvurt sinn dreymir Sigmund að til hans komi maður afar stórvaxinn og sagði: „Ef þú beitir fénu ofan fyrir hraunið skaltu sjálfan þig fyrir hitta.“ Ekki gaf Sigm[undur] gaum að þessu og beitti jafnt sem áður ofan fyrir hraunið. Dreymdi hann svo annað og þriðja sinn og gaf ekki að því. En skömmu þar eftir fannst hann dauður á hrauninu og brotið í honum hvurt bein; er hraunið síðan við hann kennt og nefnt Sigmundarhraun.