Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sigríður á Reykjum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sigríður á Reykjum

Sigríður heitir gömul kona á Reykjum í Hrútafirði; hún er ein hinna fáu sem sagt er að trúi fullt og fast tilveru huldufólks. Hún hefur oft sagt frá því að hún hafi einu sinni séð álfkonu koma til sín í draumi, fríða og siðláta í svartbláum klæðum. Kona þessi bað hennar til handa syni sínum, en hún skoraðist undan því í fyrstu af því hún yrði þá að sleppa trú sinni; en þegar konan leiddi henni fyrir sjónir hversu gott það væri að vera með álfum hvarf Sigríði smásaman allur kvíði svo hún fór á fætur og ætlaði að fara með álfkonunni. Þegar faðir hennar varð var við þetta ferðasnið á dóttur sinni, en þótt hann sæi ekki álfkonuna kallaði hann til Sigríðar; en hún vaknaði við og var þá alklædd, en ekkert varð af því að hún færi með álfkonunni.