Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sigríður í Bessatungu

Úr Wikiheimild

Á Bessatungu, Saurbæ, bjó bóndi sem Jón hét; Sigríður hét kona hans. Það var eitt kvöld snemma vetrar að hún sótti þvætti. Þar kom til hennar maður og leiddi hana að einu klettabelti; þar kómu þau sem hæstur var kletturinn og opnaðist hann þar. Sá hún konu liggjandi í rúmi sínu og hún var þunglega haldin af barnsfæðingarþrautum, og biður hann þá Sigríði að hjálpa henni. Hún gjörði sem hann beiddi og hjálpaði konunni so hún fæddi barnið, en það var blint. Þá spyr Sigríður hann að hvurnin að eigi að fara að, barnið sé blint. Þá fær hann henni svarta tölu til að bera á augun á barninu. Þá biður hún hann að lofa sér að draga á augun á sér, en hann vill það ekki nema á annað augað, það væri nóg fyrir hana. Brá hún á hægra augað og sá hún um alla baðstofuna fólk við vinnu og kvenfólk við eldastörf. Síðan var borið laugartrog til að lauga barnið og reifabúning til að reifa barnið; síðan bjó hún um konuna. Eftir þetta var henni borið sæmileg fæða; beiddi hún manninn að fylgja sér heim, en hann beiddi hana að bíða til morguns; það gjörði hún og fóstraði barnið meðan hún var þar. Um morguninn kvaðst hún vilja fara, en hann beiddi hana að bíða þangað til í sama mund um kvöldið og það gjörði hún. Eftir dagsetur um kvöldið fór hann með henni. Að skilnaði gaf hann henni bezta klæðnað og silfurskeið eina og skildi við hana í sömu sporum sem hann tók hana; kvaddi hann hana með handabandi og síðan fór hún inn til manns síns, og var það fagnaðarfundur fyrir þeim því hann hafði leitað allan daginn og margir menn með honum, og fundu hvurgi. Eftir þetta sá Sigríður allt til álfafólksins; tók hún eftir því allar búskaparreglur. Gafst henni það vel; altént breiddi hún hey þegar álfafólkið breiddi það og græddu þau bæði fé og peninga.

Fór so fram um tíu ár; þá um sumarið bauð maðurinn konu sinni að fara kaupstaðarferð með sér suður í Flatey. Þáði hún það. Þegar þau kómu þangað var þar mannfjöldi mikill. Var þar vara mikil á plássinu, meðal hvurra voru margar hálftunnur. Sér þá Sigríður að maður kemur að tunnunum; heldur hann á ærbelg undir hendinni, en í annari hendinni hélt hann á hamri litlum. Gekk hann að hvurri tunnu og sló hana upp, hvurja af annari og sló so hvurja aftur þegar hann var búinn að taka hnefa úr hvurri tunnu og láta í ærbelginn. Sigríður hugsaði að þetta mundi vera mennskur maður og ofbauð henni ofdirfska hans, og gengur hún þá til hans og segir honum að varast ofdirfsku þessa, en hann lítur snögglega í andlit hennar og segir: „Hvurnin sér þú mig?“ – og með það sama blæs hann í augað hægra og eftir þann dag sá hún ekki framar en áður.

Eftir það fóru þau heim til Bessatungu og buggu þau þar búi sínu til dauðadags.