Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sigurður litli í Múlakoti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ólafur Árnason sem hér er að framan nefndur sagði og frá því að þegar hann bjó í Múlakoti þá bjó þar öðrum megin Eyjólfur Arnbjörnsson og Guðleif Jensdóttir og áttu þau margt barna.

Það bar til eitt sumar um sláttinn að allt fólk var á engjum við heyvinnu einn góðan þerridag, en börnin voru heima. Seint um daginn gekk Ólafur heim; sá hann þá að barn hljóp upp eftir brekkunni fyrir ofan bæinn. Þekkti hann að það var drengur úr hinum bænum fimm ára gamall er Sigurður hét. Hann kallar þá eftir hönum og spyr hvað hann ætli, en drengurinn lítur ekki við og heldur áfram eftir sem áður. Þetta þykir Ólafi undarlegt og fer á stað að elta hann og þó hann sé að smákalla til þá lítur hann ekki við. Um síðir nær Ólafur hönum og er hann þá kominn langt upp eftir brekkunum og spyr hann þá hvurt hann ætli að fara. Drengurinn fer að gráta og biður hann sleppa sér því hann sé að elta hana móður sína, hún sé hér rétt á undan, en Ólafur sér öngvan og veit líka að hún er á engjum með fólki sínu. Tekur hann þá drenginn grátandi og ber hann nauðugan heim og héldu menn því að þetta hefði verið huldukona sem drengurinn hefði séð og farið að elta.

Sigurður þessi er nú bóndi í Múlakoti; hann er Eyjólfsson Arnbjörnssonar frá Kvoslæk, Ólafssonar þar. En Guðleif móðir Sigurðar var Jensdóttir Sigurðssonar Eyjólfssonar á Eyvindarmúla er var kenndur við hrísluna í gilinu, en móðir Jens Sigurðssonar var Bóel dóttir Jens sýslumanns Víum í Múlasýslu. – Endar so þessi saga.