Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sigurlaug litla á Reykjarhóli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigurlaug litla á Reykjarhóli

Árið 1862 dó á Sjöundastöðum í Barðssókn í Fljótum sjötug kona að nafni Ragnhildur Gísladóttir. Árið 1819 var hún vinnukona á Reykjarhóli í sömu sókn; átti hún þá fjögra vetra gamalt barn, Sigurlaugu að nafni. 1. maí um vorið bar svo við að fólkið allt fór úr bænum – svo barnið varð eitt eftir – að aka heim eldivið. Þegar fólkið kom heim var barnið horfið. Er nú farið að svipast í kringum bæinn og finnst barnið ekki. En þegar komið er rétt upp fyrir völlinn var sporrækt aðeins á hjarni. Sést þá slóð eftir fullorðinn kvenmann og barn; er slóðinni fylgt fram á Engidal og þar upp á lítið einstakt fjall sem heitir Gimbrarklettur, og þar fram á klettasnös. Finnst barnið þar hrapað og dautt neðan undir klettunum. Þóktust menn vita víst að huldukona hefði leitt barnið í þessa ófæru.