Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skarðsheiði

Úr Wikiheimild

Það er sagt að tröll vóru í fyrndinni á Skarðsheiði í Borgarfirði. Vóru það skessur tvær og gjörðu þær mein mönnum [og] skepnum svo af lagðist vegurinn. Þær bjuggu í hömrum þeim sem eru vestur frá Miðfitjum. Sátu þær oft á Miðfitjahól, á kletti þeim er síðan er nefndur Skessusæti.

Einu sinni fór bóndinn frá Grund í Skorradal suður fyrir heiðina og fór hann heiðina til baka, fann þá skessu á leiðinni, og segir ekki af viðskiptum þeirra. Bóndi kom heim um kveldið og dró eftir sér dauða hryssuna sem hann hafði riðið. Sjálfur var hann dasaður mjög og lagðist hann og lá svo sem viku eftir og dó síðan. Var það af viðureign skessunnar. Það sagði hann að óhætt mundi að fara um veginn eftir þetta. Fóru þá nokkrir menn yfir heiðina og sáu þeir traðk mikinn hjá Miðfitjahól. Úr traðki þessum sáu þeir slóð eina. Hún lá vestur á fjallið og var hún öll með blóðdrefjum. Lá hún upp að hamri einum og upp hamarinn. Þar sáu þeir helli upp í hamrinum, en engi gat komizt upp í hellinn, svo var hamarinn hár og brattur. Þóttust menn nú sjá að þau höfðu orðið hvort annars bani, skessan og bóndinn.

Aðrir segja að klukkur hafi verið hengdar upp á Miðfitjahól og hafi þá skessurnar orðið fældar burtu með því, en ei má vita hvorir sannara segja. Nú eru engi tröll á heiðinni svo menn verði varir við.