Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessan á Baulárvöllum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skessan á Baulárvöllum

Þegar síra Guðmundur prófastur Jónsson var á Staðastað sem þar var prestur frá 1797 fram yfir 1830 var það venja á fyrri árum hans að gera út fólk á grasafjall um og eftir fráfærnatímann. Sendi séra Guðmundur árlega fólk sitt til grasa á Baulárvallafjall því þá var þar nokkur grasatekja og lá fólk hans í tjaldi. Vinnumaður var hjá prófasti sem Vigfús hét. Hann var einu sinni sem oftar ásamt fleira fólki til grasa. Var það þá einn morgun er fólk lá allt í tjaldi og sól nýkomin upp að skugga mikinn og svartan dró fyrir aðra hlið tjaldsins. Verður þá fólk allt lafhrætt, en getur þó ekki séð glögglega í gegnum tjaldið af hverju skugginn muni vera. Dvelur skugginn þar litla stund, en hverfur síðan með hægð. Þegar hann er horfinn að lítilli stundu lítur Vigfús út um tjaldsdyrnar; sér hann þá hvar tröllskessa afar gild en ekki mjög há tilsýndum þrammar út með vatninu sem Baulárvallavatn heitir, og stefnir að felli því fyrir útnorðan vatnið sem Vatnafell er kallað; er það bratt og klettar að ofan. Þar klifrast hún upp á og hverfur síðan, og aldrei sást hún á Baulárvallafjalli eftir það, en séð kvaðst Vigfús hafa hana áður koma fram á fellsbrúnina þó ekki gæti hann um það við hitt fólkið, að ekki kæmi að því óeirð við grasatektina. En við þetta brá svo Staðastaðarfólkinu að það flutti sig hið bráðasta heim og þá lagðist niður öll grasatekja á Baulárvallafjalli.