Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessan í Spararfjalli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skessan í Spararfjalli

Svo er sagt að á Kolfreyjustað byggi prestur sá er séra Sigurður hét. Hann var maður snar og léttur á sér. Það er mælt að prestur hafi eitt sinn verið niður í svokallaðri Staðarhöfn og hafi hann verið að hirða um fisk, en sá orðrómur lék á að skessa ein byggi í Spararfjallinu[1] og þóttust menn verða varir við hana.

Séra Sigurður sér nú hvar skessan kemur og skilur hann að hún muni vilja ná sér og tekur til fóta og snýr til bæjar og rennur hún á eftir svo að hverki dró sundur né saman, þar til er gjögur eitt skerst inn í landið milli hafnar og bæjar, þá rennur prestur yfir gjögrið,[2] en skessan sem var ólétt stendur við á barminum og segir: „Þungar gjörast nú barnamæðurnar,“ og varð hún að krækja upp fyrir, en það dró baggamuninn svo að prestur var kominn í kirkjuna þegar hún var komin á vegginn. Tekur þá prestur í klukkurnar og hringir, en skessan stendur við á kirkjugarðinum og segir: „Stattu aldrei, armur,“ og þykir sóknarbúum það hafa rætzt helzt til vel. En upp frá því varð enginn var við skessuna.

  1. Spararfjall er fyrir vestan og ofan bæinn. [Hdr.]
  2. Gjögrið er nú kallað Prestagjögur síðan. [Hdr.]