Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessusteinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skessusteinn

Í grennd við Kirkjubæ í Hróarstungu eru klettar nokkrir einkennilegir þeir er Skersl nefnast. Í þeim er hellir einn og þar bjuggu eitt sinn tröllkarl og tröllkerling. Hét hann Þórir, en nafns hennar er eigi getið. Tröll þessi seiddu til sín á ári hverju annaðhvort prestinn á Kirkjubæ eða smalann og fór svo fram um hríð að annarhvor þeirra hvarf þar til er þar kom prestur sá er Eiríkur hét. Eiríkur prestur var manna andríkastur og fékk hann með bænum sínum varið svo bæði sig og smalamann sinn að allar tilraunir þeirra tröllanna komu fyrir ekki. Leið svo fram eftir jólaaftninum. Þá er mjög var liðið á jólakveldið þótti skessunni örvænt um að fá vélað þá prest eða smalamann á vald sitt. Gafst hún þá upp og mælti við bónda sinn: „Nú hef ég reynt til þrautar að seiða þá prest eða smalamann, en fæ eigi að gjört því að í hvert skipti sem ég hef seiðinn finnst mér svo sem heitur andi leggi á móti mér er ætlar að brenna hvern legg og lið í mér, og verð ég þá jafnan að hætta við svo búið. Nú verður þú að fara og sjá okkur fyrir mat því ekki er nú til annar matur í helli okkrum.“

Jötunninn kvaðst þess ófús að fara, en lét þó til leiðast fyrir áeggjan skessunnar. Hélt hann á stað úr hellinum vestur yfir ás þann er síðan er við hann kenndur og Þórisás kallaður og út á vatn það er síðan er Þórisvatn nefnt. Á það braut hann gat og lagðist niður og dorgaði upp um vökina allmikið af silungi. Frost var mikið. Þá er jötunninn þóttist nóg hafa veitt ætlaði hann að standa upp og halda heim með veiðina, en þá var hann frosinn svo mjög við ísinn að eigi mátti hann upp standa. Brauzt hann um fast og lengi, en það kom fyrir ekki, og leið honum í brjóst þar á ísnum og lét svo líf sitt.

Skessunni þótti bæði seinka komu bónda síns og hún tók að svengjast; hljóp hún því á stað úr hellinum sömu leið og jötunninn yfir ásinn og fann hann þar sem hann lá örendur á ísnum. Hún reyndi lengi til þess að rífa hann upp úr svellinu, en er hún sá að þess var enginn kostur greip hún silungakippuna, snaraði á bak sér og sagði um leið: „Legg ég á og mæli ég um að ekkert veiðist framar úr vatni þessu,“ og varð það að áhrinsorðum því síðan hefur þar verið með öllu veiðilaust. Síðan hélt skessan heim til hellis síns, en er hún kom upp á ásbrúnina var það hvorttveggja jafnsnemma að hún sá að dagur rann í austri og klukknahljómur gall við í eyrum henni. Varð hún þá að steini þar á ásbrúninni, þeim er síðan er Skessusteinn kallaður.