Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sko minn gráa dinglufót

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Sko minn gráa dinglufót“

Einu sinni voru mörg börn heima á jólanótt, en fullorðna fólkið hafði farið til kirkju eins og siður var til forna. Börnunum höfðu verið gefin kerti að kveikja á að gamni sínu og rauðir sokkar. Þau sátu nú öll á gólfinu um kveldið og voru að skoða sokkana sína; þótti hvoru um sig sínir vera fallegastir. „Sko minn fót, sko minn fót!“ sögðu þau. Þá er sagt á glugganum: „Sko minn gráa dinglufót!“ Þá segir yngsta barnið sem var eins og á millum vita og ekki kunni að hræðast eins og hin: „Er þetta Jesús Kristur sem fæddist í nótt?“ Þá hvarf þetta af glugganum og bar ekki á því framar.