Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skrímslið í Brúnavík

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skrímslið í Brúnavík

Maður hét Sveinn Guðmundsson; hann bjó í Brúnavík við Borgarfjörð austur. Hann var sjómaður mikill og átti aflaföng mikil og lét því byggja skemmu stóra niður á sjóarbakka í hverri hann hafði aflaföng sín. Það bar til einn vetur um kveldtíma sem menn kalla vökustaurskveld að bónda vantaði að sækja matföng ofan í skemmuna, nefnil. rikling, rafabelt og hákarl. Hann fór svo í skemmuna og tók til það sem hann ætlaði að sækja, en þegar hann ætlar út úr skemmunni sýndist honum eitthvað í mannslíki sitja í dyrunum; talar hann þá til þess og skipar því í burt, en það sat sem áður. Greip hann þá hákarlasax er þar var inni og rak í vofuna. Henni brá lítt við, en sagði: „Drag út og sting inn aftur.“ „Haf þú það sem þú fékkst,“ saði bóndi og skreiddist þá vofan út og hélt til sjóar. En bóndi gekk heim og er hann kom í baðstofu sýndist fólki hann sviplegur, en morguninn eftir sagði hann frá atburði þessum. Var þá farið að leita að saxinu og fannst það í sjóarbakkanum. Eftir þetta lagði bóndi af skemmuna og hefur enginn byggt hana upp síðan, en þó sést glöggt til tóftarinnar.