Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skrímslið í Vesturhópsvatni (1)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skrímslið í Vesturhópsvatni

Á næstliðinni öld bjó maður sá á Bjarghúsum í Vesturhópi er Kolbeinn hét. Hann var snauður maður, en kom sér alstaðar vel, og urðu því margir til að gjöra honum gott. Einu sinni gekk hann í góðu veðri og tunglsljósi yfir Vesturhópsvatn á ísi að Vatnsenda til þess að fá nokkuð hjá bóndanum þar til jólanna. Var þetta á Þorláksmessuaftan. Bóndi lét hann hafa vænt sauðarkrof. Snéri Kolbeinn þá heimleiðis og bar krofið. Þegar hann var á miðju vatninu heyrði hann dunur fyrir aftan sig; brast ísinn þar og kom upp dýr mikið áttfætt, líkast því í vexti og sköpulagi sem tveir hestar væru fastir saman á rössunum, og sýndist tvö höfuð á því. Skrímslið veitti Kolbeini eftirför. Sá hann að hann mundi ekki draga undan svo hann lét krofið laust og hljóp svo heim sem mest mátti hann. Daginn eftir fór hann að vitja krofsins, en fann þó ekkert af því nema beinatuggur. Leiddi hann nágranna sína að og sýndi þeim; en svo var hann vel látinn að þeir bættu honum skaðann.