Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skrímslið í Vesturhópsvatni (2)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skrímslið í Vesturhópsvatni

Um 1840 var sá vinnumaður á Klömbrum í Vesturhópi er Grímur hét. Hann gætti fjár bóndans þar á vetrum. Einu sinni eitt haust þegar hann var búinn að taka við fjárgeymslunni stóð hann yfir fénu niður við Vesturhópsvatn skammt frá nesi einu er gengur austur í vatnið og kallað er Klambranes. Kvöld var komið og nokkuð farið að dimma. Vatnið var autt. Hann sér að eitthvað eins og bátur í lögun kemur austan vatnið og stefnir á nesið. Þegar það kemur nær vesturlandinu sýnist honum það velta á ýmsar hliðar. Fer það að nesinu og upp á land. Honum sýndist tvö höfuð vera á því sitt á hverjum enda, en ekki sá hann hvernig það var í lögun að öðru leyti. Æði stórt sýndist honum það vera og leiftruðu eldglæringar út frá því á alla vegu. Kom þá mikil styggð að fénu og hljóp það heim. Varð Grímur þá að elta það. Ekki sá hann þetta veita sér neina eftirför og ekki sá hann það síðan, en menn héldu að það hefði verið skrímslið sem sagt er að sé í Vesturhópsvatni.