Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skrímslið hjá Bjarnanesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skrímslið hjá Bjarnanesi

Í júnímánuði 1848 vakti vinnumaður Jón Magnússon yfir túni á Bjarnanesi og gekk um nóttina inn með sjó, að sjá eftir um skepnur hvört nálægar væru. Hann sá þá af háum bökkum hvar dýr lá þar sem saman kemur gras og grjót lítið frá sjó. undir því sokallaða Miðklifi skammt fyrir utan Köngustaðaá. Þetta dýr sýndist hönum á stærð við fullorðna kú eður hest. Það var að framan steingrátt, en aftan ljósbleikara; höfuð og hálsinn sýndist hönum stutt og fram og upp úr höfðinu vóru tvær hyrnur eður horn, nokkuð stærri en eyru á hesti. Tveir hundar vóru hjá Jóni sem geltu þá þeir sáu, dýrið, við hvört atvik dýrið hrærðist ekkert, enda hélt hann rökkunum so hjá sér að þeir komu ei nálægt dýrinu, og af því hann varð óttasleginn af sjón þessari og meinti bjarndýr vera mundi – hvað þó ekki gat haft stað – flýtti hann sér heim. Verst var að hann ekki uppvakti húsbónda sinn Björn sem er bæði skynsamur og þrekmaður mikill, hafði líka bæði kíkir og vopn, að skoða betur dýr þetta og verjast því ef þurft hefði. Þessi Jón er óskreytinn, skikkanligur og fámálugur og sæmiliga gáfaður.