Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Smalinn á Silfrúnarstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Smalinn á Silfrúnarstöðum

Maður hefur Guðmundur heitið; hann bjó á Silfrúnarstöðum í Skagafirði. Hann var ríkur maður að gangandi peningi, vel metinn og virður. Hann var kvæntur, en varð þó eigi barna auðið.

Svo bar til á Silfrúnarstöðum einn jólaaftan að smalamaður kom eigi heim um kvöldið. Beitarhúsin voru inn með fjallinu á sama stað sem þau ennþá standa og stóð smalamaður yfir fé á daginn, en gekk heim á kvöldin. Smalamanns var leitað og fannst hann hvergi. Næsta vor réði Guðmundur bóndi til sín smala er Grímur hét. Hann var sterkur og stór maður og þóttist ekki uppnæmur fyrir hverju einu. Bóndi biður hann þó að fara varlega og á aðfangadag jóla biður hann hann að láta snemma inn féð og koma heim í björtu, en Grímur kemur eigi um kvöldið og var hans leitað daginn eftir, en fannst eigi; þótti mönnum þetta mjög undarlegt og voru um það ýmsar tilgátur. Guðmundur bóndi varð mjög bryggur af þessum atburðum og fékk nú ekki framar nokkurn þann er vildi verða smali hjá hönum.

Í þá tíð bjó fátæk ekkja á Sjávarborg. Hún átti margt barna og var elztur sonur hennar, fjórtán ára að aldri, er Sigurður hét. Þennan dreng falaði Guðmundur bóndi fyrir smala og hét móðir hans miklu fé ef hún lánaði sér drenginn. Sigurður hélt þessu máli mjög fram til þess að bæta kjör móður sinnar, en móður hans var það mjög í móti skapi; en svo fór að Sigurður fór með Guðmundi bónda; smalaði hann fénu um sumarið og gekk ágæta vel. Gaf bóndi hönum þá sauð og á með lambi og þótti drengnum vænt um. Guðmundur bóndi elskaði Sigurð mikið og á aðfangadag jóla biður hann nú Sigurð að fara varlega og koma heim fyrir dagsetrið. Sigurður stendur yfir fénu um daginn og rekur heim að húsunum undir kvöldið. Þá heyrir hann þungt fótatak uppi í fjallinu og sér hann þar flagðkonu koma heldur ógurlega og ófrýnilega. „Sæll, Sigurður minn,“ segir flagðkonan, „ég ætla nú að fá þig í pottinn minn í kvöld.“ „Vertu ekki að því arna,“ segir Sigurður, „ég er svo lítill og magur að enginn fengur er í mér, en ég á hérna sauð og lamb sem ég skal gefa þér í pottinn.“ Afhendir hann þá henni sauðinn og lambið og leggur hún hvorutveggja á herðar sér og leggur upp á fjallið. Sigurður kemur heim um kvöldið og fagnar bóndi hönum vel og spyr hann hvort hann hafi einkis orðið var. Sigurður kvað nei við og sagði að ekkert hefði fyrir sig borið. Varð nú bóndi mjög glaður að þessum bágindum létti af. Eftir nýjárið kemur bóndi að húsunum og skoðar féð; saknar hann þá sauðsins og lambsins er Sigurður átti og spyr hann Sigurð hvað valdi. Hann kvað tófuna hafa rifið lambið, en sauðinn dottið ofan í, og kvaðst ekki mundi verða alls kostar heppinn með sauðaeignina. Bóndi gefur hönum þá eina á og tvo sauði og biður hann að verða hjá sér eftirleiðis. Sigurður játti því og líður nú af veturinn og sumarið og fram til næstu jóla. Biður þá bóndi Sigurð fyrir hvern mun fara varlega og kvaðst hann elska hann eins og son sinn. Sigurður sagði að ekkert væri að óttast og að hann mætti vera óhræddur. Á aðfangadagskvöld lætur Sigurður inn féð og kemur þá flagðkonan að og segir að nú skuli ekki lengur dragast að fá hann í soðið. Sigurður sagði: „Ég er til ef þú vilt, en þú sérð, að í mér er ekki niðurlag á við einn sauð, en nú skal ég gefa þér til jólanna tvo sauði og tvo geldinga; ertu ekki ánægð með það?“ „Láttu sjá,“ kvað flagðkonan; kom þá Sigurður fram með féð og krækti flagðkonan þeim saman á hornum og gekk á burt upp í hlíðina. Sigurður kom heim um kvöldið og kvaðst ekki hafa orðið var við neitt. Bónda þótti svo vænt um Sigurð að hann gaf hönum um sumarið fjóra sauði og réðist Sigurður ennþá til hans.

Næsta jólaaftan lætur Sigurður féð inn og kemur flagðkonan ennþá og vill taka hann; býður hann henni þá fjóra sauðina er hann átti, og þá hún þá og krækir þeim upp á bak sér, þrífur síðan til Sigurðar og heldur á honum undir hendinni; tók hún síðan á rás upp í fjallið og að helli einum upp í eggjunum; þar leggur hún niður byrðina og býður Sigurði að skera sauðina og raka svo gærurnar. Þegar Sigurður var búinn að því spyr hann kvað hann eigi nú að starfa; fær hún honum þá exi og biður hann að brýna svo að vel bíti því hún ætli að höggva hann með henni. Sigurður gjörir það og fær henni svo exina; hún skipar þá Sigurði að taka af hálsinum á sér; gjörir hann það og bregður hönum eigi; lagði þá flagðkonan frá sér exina og kvaðst ekki hafa í hyggju að lífláta hann. „Þú munt langlífur verða,“ kvað hún, „og mikill gæfumaður og því hef ég hagað því svo að þú yrðir smali á Silfrúnarstöðum svo ég næði fundi þínum. Og vil ég nú segja þér þann veg sem þú skalt ganga til gæfu þinnar. Í vor skaltu fara frá bónda og flytja að Ási í Hjaltadal; þar býr smiður góður og skaltu læra hjá hönum smíðar, en þegar þú ert fullnuma skaltu gjöra þér ferð með varning og glingur að Miklabæ í Óslandshlíð. Þar eru þrjár dætur er prófasturinn á og er hin yngsta þeirra, er Margrét heitir, beztur kvenkostur á Íslandi. Hinar eldri systurnar eru gefnar fyrir glingur og stáss og munu þær girnast það er Margrét mun eigi vilja kaupa. Þá skaltu biðja hana þegar þú ferð að fylgja þér til dyra og þegar þar kemur skaltu biðja hana að fylgja þér á vallarfót; mun hún gjöra það og skaltu þá gefa henni þessa þrjá gripi er ég nú fæ þér, klút, belti og hring, og muntu þá fá ást hennar. En þegar þig dreymir mig skaltu vitja hingað aftur í helli minn og mun ég þá látin; skaltu þá verpa haug að mér að fornum sið og taka það sem fémætt er í helli mínum.“ Skildu þau Sigurður að svo mæltu og hélt Sigurður þá heim. Var þá bóndi orðinn mjög hryggur af burtuveru hans og tók hönum feginshuga og spurði hvert hann hefði nú ekki orðið var við neitt. Neitaði Sigurður því og kvaðst ábyrgjast skyldi að engan smala hans mundi framar saka.

Um vorið réðist Sigurður þaðan og að Ási í Hjaltadal og tók til smíðanna og gekk hönum það mjög greiðlega svo að hann varð fullnuma eftir tveggja ára tíma. Hann hélt stöðugri vináttu við Guðmund bónda og kom þar oft. Eitt sinn gjörir hann sér ferð í Hofsósverzlunarstað og kaupir þar glingur og fáséna hluti og heldur með það að Miklabæ; lætur hann þar á sér heyra að hann hafi varning til sölu og fallega klúta. Þegar þær eldri systur heyra þetta biðja þær hann að láta engan sjá nema sig og lofa sér að velja úr, Sigurður hét því og sýnir þeim varninginn; keyptu þær margt að hönum, en Margrét leit á og vildi ekki af hafa. Þegar Sigurður kveður biður hann Margréti að fylgja sér til dyra; hún gjörir svo, en þegar þar kemur biður hann hana að fylgja sér á vallarfótinn, en hún kvaðst eigi vita hvað slíkt ætti að þýða, að hann ókenndur maður beiddist þessa af sér sem mætti virðast ósvinna. Sigurður biður hana því betur og varð það af að hún gengur með hönum. Gefur Sigurður henni þá gripina og biður hana vel að njóta og dregur hringinn á hönd henni. „Fegin vilda ég ekki hafa þáð gripi þína,“ sagði Margrét, „en það finn ég að sú náttúra fylgir þeim að ég ekki get skilað þeim aftur og verður það svo að vera.“ Skilja þau að svo búnu og heldur Sigurður heim að Ási.

Margrétu prófastsdóttur brá svo við gripina að henni fannst sem hún engan mann gæti átt eða elskað annan en Sigurð og þótti sem hún eigi gæti án hans lifað, og urðu svo mjög brögð að þessu að hún sagði föður sínum frá; hann leitaðist með öllu móti við að fá hana frá slíkri fásinnu og kvað slíkt aldrei skyldi verða að sér lifandi. Setti þá Margréti hljóða og neytti hún hvorki svefns né matar; sá þá faðir hennar að svo búið mátti ekki standa og tók sér ferð á hendur að Ási í Hjaltadal og ræður Sigurð til sín til smíða. Dvaldist Sigurður þar um hríð og kom svo innan skamms á með Margréti og hönum að þau hétu hvort öðru ævinnum tryggðum og var það með samþykki föður hennar. Litlu síðar dreymdi Sigurð flagðkonuna og þóttist hann þá vita að hún mundi vera dauð. Biður hann þá prófast að ríða með sér upp að Silfrastöðum og gistu þeir hjá Guðmundi bónda. En þá Guðmundur heyrði að Sigurður væri trúlofaður prófastsdóttur sagðist hann vilja gjöra það uppskátt sem sér hefði lengi búið í huga, og það var að arfleiða Sigurð að öllum fjármunum sínum, og bauð hann hönum að taka við búi sínu og öllum fjármunum á næsta vori. Sigurður þakkaði bónda einkar vel og prófastur varð glaður við er hann sá dóttir sína komast að svo góðum efnum. Daginn eftir bauð Sigurður prófasti og Guðmundi bónda að ganga með sér upp í fjallið; kemur hann þá að hellismunna einum upp undir fjallseggjunum og kvað þeir skyldu óhræddir inn ganga. Sáu þeir þar þá flagðkonuna liggja dauða á gólfinu og var fremur ófrýnileg. Sagði Sigurður þeim þá upp alla söguna og bað þá að hjálpa sér að koma flagðinu fyrir. Urðuðu þeir hana í grjótinu fyrir framan hellismunnann og gengu síðan innar í hellinn og fundu þar alls konar muni fullklyfja á tíu hesta sem Sigurður flutti heim að Silfrastöðum. Um vorið giftist Sigurður og tók að stjórna búi sínu á Silfrastöðum. Hann var jafnan mikils metinn og hinn mesti lánsmaður til dauðadags. Af veginum upp með Norðurá er mælt að bæði megi sjá hellismunnann og grjótdysið fyrir neðan.