Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Smalinn í Fljótsdal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Smalinn í Fljótsdal

Fyrir skömmu (í minni þeirra sem nú lifa) bjó í Fljótshlíð, á bæ þeim er Fljótsdalur heitir, bóndi sá er Benidikt hét. Hann hélt ungling sem Magnús hét og var Einarsson. Magnús þessi smalaði ánum á sumrin. Svo stóð á að foreldrar bónda höfðu búið á þessum sama bæ og var móðir hans hjá honum þegar þessi saga gjörðist. Jafnan hafði leikið það orð á að fleira væri kvikt í Fljótsdalslandi en alþýða sæi og því þótti sumum varúðarvert að senda unglinga frá bæ að kvöldi eða um næturtíma. En bóndi var einn af þeim sem bera allt þess háttar til baka og kallaði hann það hégóma sem hvörgi ætti sér stað.

Svo bar til eitt kvöld að vöntuðu fimm ær hjá Magnúsi og vildi bóndi að hann færi að leita þeirra, en móðir bónda sem Anna hét mælti í móti og sagði ekki ráðlegt að senda ungling svo seint frá bænum. En bóndi réði og fór Magnús um kvöldið, en kom ekki heim um nóttina og ekki daginn eftir; var þá spurt um Magnús í nágrenninu, en enginn hafði orðið var við hann. Leið svo vika að Magnús kom ekki heim og fannst ekki þó leitað væri. En þegar vikan var liðin kom Magnús heim heill og hraustur eftir því sem hann átti vanda til. Bóndi tók honum fálega og bar upp á hann að hann mundi hafa staðið á bæjum, en bað hann þó satt frá segja hvar hann hefði verið allan þennan tíma. Magnús kvaðst hafa gengið upp með bæjargilinu og leitað ánna þar í kring meðan sauðljóst var, en þegar dimmt var orðið sagðist hann hafa farið inn í skúta nokkurn, lagt sig þar fyrir og þar voru inni þrír kvenmenn, ein fullorðin, en tvær unglegar. Hvört þetta var í draumi eða vöku sagðist hann ekki vita, en konur þessar sagði hann hafa verið mikið góðar við sig og báðu þær hann að vera hjá sér og fara aldrei burt þaðan. En hann sagðist ekki hafa þorað það og færðist því undan bæn þeirra. En þegar hann kom til sjálfs síns var hann í sama skútanum sem hann lagðist niður um kvöldið og ætlaði að hann hefði ekki verið í burt lengur en eina nótt.

Þetta var sögn Magnúsar og lagði bóndi lítinn trúnað á hana, en þó gat enginn upplýst þetta betur því enginn hitti hann tímann sem hann vantaði. Það er ennfremur sagt að svo hafi Magnús verið nauðugur að segja frá þessu að hann hafi sagt að hann segði ekki frá því nema bóndi vildi ábyrgjast að ekki yrði verra af ef hann hefði orð á því. En bóndi hefur að líkindum gjört lítið úr þeirri ábyrgð.

Litlu eftir þetta vantaði enn nokkrar ær hjá Magnúsi og vildi bóndi að hann færi að leita þeirra. Kvöld var komið og mælti Anna móðir bónda móti því, en það tjáði ekki. Magnús kom ekki heim um nóttina, en um morguninn var hans leitað; fannst hann loks í brekku nokkurri í fyrrnefndu gili, en var þá öldungis lémagna og mállaus; var hann þá borinn heim og eftir nokkurja legu fékk hann málið og alla meðvitund; sagði hann þá svo frá að jafnan þegar hann ætlaði upp úr gilinu og heim þá hefði sér verið hrundið til baka niður í brekkuna þar til hann hefði af þreytu og vanmegni ekki vitað til sín, og skömmu síðar andaðist hann.