Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Snotra álfkona

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður er nefndur Jón og bjó á Nesi við Borgarfjörð. Kona hans hét Snotra og vissi enginn ætt hennar. Hún var fríð og vitur kona, stillt og fámálug. Þau áttu eina dóttur. Það eitt var kynlegt um háttu Snotru að hún hvarf hvert aðfangadagskvöld og kom aftur á jólakvöld. Mönnum þótti þetta undarlegt. Þó fór enginn að hnýsast um hagi hennar fyrr en eitt sinn að sauðamaður bónda sat um hana einn aðfangadag. Þegar húmaði leggst Snotra fyrir, en fer skömmu seinna á fætur hljóðlega, gengur út og niður til sjávar. Sauðamaður fer í hömót á eftir henni. Hann sér hún tekur upp tvær silkislæður í fjörunni, kastar annari niður, en breiðir hina yfir höfuð sér og steypir sér í sjóinn. Hann gjörir slíkt hið sama, tekur silkislæðuna sem eftir lá og steypir [sér] á eftir. Þau líða lengi niður; þangað til þau komu á grænar grundir. Skammt þaðan sér sauðamaður borg skrautlega. Þangað gengur Snotra; er þaðan að heyra gleði mikla og glaum. Snotra gengur í höll og er þar alsett mönnum á báða bekki og vistir miklar á borðum. Maður sat í hásæti tígulega búinn og var dapur; til hægri handar var auður stóll. Allir fögnuðu Snotru og þó mest hásætismaður. Hann faðmar hana og setur í auða stólinn. Sauðamaður stóð í horni í skugga. Nú tekur öldin til snæðings og eru slátur svo feit á borðum að aldrei hafði sauðamaður slík séð. Hann læddist að og náði einu rifi og geymdi; hann náði og öðrum mat til snæðings. Eftir að menn höfðu matazt var vín drukkið og dansað af mikilli gleði. Daginn eftir gekk allt fólk í kirkju. Ekki skildi sauðamaður þar eitt orð, en fagur þótti honum söngurinn. Þenna dag var og gleði mikil, en undir kvöldið urðu allir hljóðir því þá bjóst Snotra burtu. Þau hásætismaður kvöddust og hörmuðu mjög.

Nú fóru þau Snotra og sauðamaður sömu leið og fyrr gegnum sjóinn, líklega upp á móti, og í fjöruna fyrir neðan Nes. Þar gætir hún að smalamanni og spyr hvað hann sé að fara. Hann kveðst hafa farið á eftir henni alla leið. Hún neitar því. En þá sýnir hann henni sauðarrifið til jarteina svo hún skilur að hann segir satt. „Hafðu mikla þökk fyrir, maður; þú hefir leyst mig úr ánauð. Það var lagt á mig að ég skyldi fara í mannheima og vera þar alla ævi nema hverja jólanótt skyldi ég mega vera í álfheimum. Maðurinn í hásætinu er konungur og maðurinn minn. Það var lagt til bóta að ef mennskur maður þyrði að fara á eftir mér til álfheima og sjá þar bústaði mína skyldi þessi álög ganga af mér. Og hefir þú nú hjálpað mér svo ég má fara heim til konungs míns, en þú munt verða hinn mesti gæfumaður. Jón bóndi minn hinn mennski mun hér eftir verða skammlífur, því hann mun harma mig. Þá bið ég þig taka dóttur okkar og vera henni í föðurstað.“ Sauðamaður lofar þessu og nú skilja þau; steypir Snotra sér aftur í sjóinn. Sauðamaður gengur heim og segir engum að sinni um ferðir sínar. Svo fór sem Snotra gat til, að Jón bóndi varð skammlífur. Þá tók sauðamaður dóttur hans og bjó síðan á Nesi til elli og var hinn mesti auðnumaður. Síðan er bærinn kenndur við Snotru og kallaður Snotrunes.