Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlka dvelur með álfum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Stúlka dvelur með álfum

Einu sinni var stúlkubarn á fjórða eða fimmta ári einsamalt að leika sér. Barninu sýndist hún fóstra sín ganga hjá sér og elti hana. Konan fór nú að steini einum og þar inn og stúlkan á eftir. Var hún þar hjá álfkonunni þangað til hún var þrettán ára gömul. Féll henni þar vel og lærði af álfkonunni marga andlega sálma og kvæði sem hún hafði aldrei fyrr heyrt. Eitt vers úr þeim sálmum er svona:

„Jesús minn bróðir
í himnaríki er,
græðarinn minn góði
geymdu mig hjá þér.“

Eitt vers úr kvæðum álfkonunnar er svona:

„Svo skaltu mæla
þá þú út gengur
úr húsum manna
undir himin beran:
„Fel ég minn anda
í hendur guði.“
Haf þú orðtak slíkt
um ævi alla.“

Þegar stúlkan var orðin þrettán ára sagði álfkonan henni að fara heim aftur til foreldra sinna. Skildu þær með kærleikum og gaf álfkonan henni margar góðar gjafir að skilnaði. Meðal annars gaf hún henni gimsteina sem hún sagði henni að bera jafnan í hárinu, en þegar þeir hyrfi þaðan mætti hún búast við að eiga skammt eftir ólifað. Fór stúlkan svo heim og varð þar meiri fagnaðarfundur en frá megi segja; því allir héldu stúlkuna fyrir margt löngu dauða. Óx hún svo upp og var efnileg, en heldur undarleg eins og allir þeir verða sem álfar hafa hyllt til sín og hjá þeim hafa dvalið. Seinna giftist stúlkan og varð lánskona. En einu sinni þegar hún kom frá kirkju og tók af sér faldinn voru gimsteinarnir horfnir úr hári hennar. Leið þá og skammt um þangað til hún lagðist og dó.