Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlka leggur leiðir sínar í álfhól

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Stúlka leggur leiðir sínar í álfhól

Einu sinni voru hjón á bæ einum; þau áttu eina dóttur; hún hvarf oft á hverju kvöldi í rökkrinu. Móðir hennar var fálát við hana og unni henni lítt, en á bænum var gömul kona er hélt mjög upp á stúlkuna. Hún vildi aldrei segja móður sinni hvað hún væri að fara. En þegar gamla konan spurði hana að því sagði hún henni að þar í túninu skammt frá væri hóll einn; kvaðst hún fara þangað og væru þar tveir bræður er tækju sér mjög vel; en þó sagði hún sér þætti leitt að sjá þar aldrei bók.

Liðu svo fram stundir til þess að stúlkan var fermd; var hún til altaris næsta sunnudag er messað var. Um kvöldið sagði gamla konan henni að hún skyldi fara í hólinn og vita hvernig henni yrði tekið. Hún gjörir svo. En er hún kemur aftur spurði konan hvernig þeir hefðu tekið henni. Hún sagði að þeir hefðu tekið sér vel, en þó hefðu þeir ekki viljað kyssa sig; sögðu þeir svartan blett vera kominn á varir hennar. Leið svo lengi unz maður kom og bað hennar. Hann fékk hennar jafnskjótt og fór hún með honum. Að þrem árum liðnum fór hún í orðlof til foreldra sinna. Kerlingin gamla sagði henni að fara þá í hólinn og vita hvernig þar liði. Hún gjörði það. Að lítilli stundu liðinni kemur hún aftur. Kerling spurði hana þá að hvernig þar liði. Hún mælti: „Þar líður vel, en þó sá ég ekki nema annan þeirra bræðra; sagði hann mér að bróðir sinn hefði sprungið af harmi.“ Fóru þau hjón síðan heim til hús síns og lýkur svo sögunni.