Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlkan á Svínaskála

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á bæ þeim er á Svínaskála heitir á Eskifirði varð sá atburður eitt vordagskvöld að konan bóndans sem Þórunn hét var að búa upp rekkjur í baðstofu og lék hjá henni á gólfinu meybarn er hún átti, að nafni Ragnheiður, fjögra eða fimm ára. En þegar konan var að búa um í seinasta rúminu bað barnið hana að lofa sér að koma fram. Veður var gott og leyfði hún meyjunni að fara og mælti: „Þú mátt fara fram að bæjarþrepskildinum og bíddú mín þar og varastu að fara út.“ Fór þá litla meyjan fram og hélt á lítilli trésleif í hendinni sem hún var að leika sér að. En konan flýtti sér að búa upp í rúminu; síðan gekk hún fram og bjóst við að hitta litlu dóttirina sína í bæjardyrum, en æ! hún var horfin og þó móðir hennar leitaði hennar með tárin í augunum og kallaði á hana með grátraust kom hún ekki og bergmálið eitt svaraði hrópi hennar. Var þá brátt safnað miklum mannfjölda til að leita mærinnar og var hennar leitað mörgum dægrum saman og fannst hún ekki að heldur, og gat enginn vitað hvar hún væri niður komin því engin hætta eða feni né pyttur vóru í nánd sem barnið hefði getað dottið ofan í, landið slétt og ódældótt og lækir ekki, nema hvað lítill og fagur bæjarlækur rann í fögrum farveg annars vegar við bæinn. En spölkorn fyrir ofan bæinn vóru klappir nokkrar sléttar og híbýlalegar, en þegar mærinnar var leitað upp að klöppunum fannst trésleifin litla sem mærin hafði í hendinni þegar hún gekk frá móður sinni í síðasta sinni og var það haft fyrir satt að huldufólk úr klöppinni hefði tekið meyjuna litlu, og víst er það að aldrei fannst þetta meybarn síðan.