Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlkan sem ljósið kveikti

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í Mývatnssveit á bæ þeim er á Strönd – heldur en Vogum – heitir bar það til eitt vetrarkvöld að silungsveiðimenn komu sunnan af Mývatnsís í dimmri molluhríð. Var mjög svo liðinn dagur svo náttmyrkur var og hríðardimman. En er þeir komu sunnan völlinn sáu þeir að kvenmaður gekk austur völlinn og bar ljós í hendi. Þeir gengu heim, en í bæjardyrum fundu þeir kvenmann í öngviti. Var þá dreypt á hana og búið vel um og raknaði hún þá við. Hún hafði kveikt ljós og ætlað að bera það út því veður var kjurt, til að láta mennina er af ísnum komu sjá það, en þegar hún kom í bæjardyrnar kom kona inn í dyrnar með lýsispönnu í hendi og vildi kveikja við ljósið sem hin bar, en hún hristi svo ljósið að hin gat ekki kveikt. Þá greip sú aðkomna konan um hendina á þeirri sem ljósið hafði og hélt henni meðan hún kveikti og gekk síðan út, en hinni varð svo hverft við að hún féll í öngvit, og bar það allt saman að konan gekk upp völlinn sem kallmennirnir sáu er þeir komu og þeir gengu heim og fundu hina í öngvitinu í bæjardyrunum.