Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Steinninn í hestaréttinni á Stað

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Steinninn í hestaréttinni á Stað

Á Stað í Hrútafirði er gömul hestarétt í útsuðurhluta vallarins. Í miðri tóftinni stendur steinn einn mikill, svo sem hálf þriðja alin á hvern veg. En svo stendur á með stein þenna að fyrsta sinni er messað var í kirkjunni á Stað þá reiddust tröllin í Tröllakirkju og köstuðu steini þessum og ætluðu að brjóta með honum kirkjuna, en hann lenti í tóftinni og urðu undir honum fjórir hestar.

Tröllakirkja er hæsti hluti Snjófjalla þeirra sem eru vestanvert við Holtavörðuheiði og dregur hún nafnið af því að hún var aðalaðsetur allra trölla í vesturfjöllunum.