Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sveinninn sem undi ekki með álfum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sveinninn sem undi ekki með álfum

Norður í Þingeyjarsýslu hvarf eitt sinn drengur á fjórða árinu. Var hann viku í burtu og fannst aftur neðan undir háum klettum er voru í nánd við bæinn. Sáust þá þrjú fingraför á kinn hans. En er hann var að spurður hvar hann hefði dvalið sagðist hann hafa verið á bænum þarna sem þeim sýndist vera klettar einir. Sagði hann að þar hefði búið álfafólk sem hefði viljað hylla sig, en hann sagðist eigi hafa getað borðað hjá því því allur matur hefði sér sýnzt maðkaður. Hefði það þá séð að eigi hefði orðið um sig tætt og hefði gömul kona leitt sig á brott og sagt hann skyldi þess þó menjar bera að hann hefði hjá álfafólki dvalið og slegið hann kinnhest og gengið síðan burt. Ólst drengurinn upp og varð merkisbóndi. Eitt sinn reið hann fram hjá klettum þessum og kvað hann þá vísu þessa:

Þessar klappir þekkta ég fyr
þegar ég var ungur;
átti ég víða á þeim dyr,
eru þar skápar fallegir.

Þennan mann sá Hallgrímur læknir Bachman og sá fingraförin á kinn hans sem hann og bar til dauðadags.