Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Systurnar og álfafólkið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Systurnar og álfafólkið

Einu sinni voru tvær systur frumvaxta hjá foreldrum sínum er höfðu aðra þeirra að olbogabarni. Einu sinni um veturinn bar svo við að allt fólk af bænum ætlaði til aftansöngs á gamlárskveld og þar á meðal langaði bóndadótturina sem út undan var höfð mjög til að fara. En sökum þess að einhver varð að vera eftir heima þá var hún látin sitja kyrr þótt henni væri það nauðugt. Og er allt fólkið var farið að heiman tók hún til að hreinsa bæinn bæði uppi og niðri og setti ljós hvervetna. En er hún hafði lokið þeim starfa bauð hún heim huldufólki með þeim hætti sem tíðkaðist og gekk í kringum allan bæinn með hinum tíðkanlega formála („Komi þeir sem koma vilja,“ etc.). Síðan gekk hún inn á loft og fór að lesa í guðsorðabók og leit aldrei upp úr henni fyrr en dagur rann. En jafnskjótt og hún var setzt kom inn í húsið fjöldi álfafólks og var það allt búið gulli og skrautklæðum. Raðaði það um gólfið alls konar gersemum og bauð bóndadóttur; fór það og að stíga dans og bauð bóndadóttur; fór það og að stíga dans og bauð henni að koma í dansinn, en hún sinnti því ei, og þessu atferli hélt huldufólkið allt til dags. En er dagur rann leit bóndadóttir út í gluggann og mælti: „Guði sé lof, nú er kominn dagur.“ Og er huldufólkið heyrði guð nefndan þaut það burt og skildi eftir allar gersemarnar. Þegar fólkið kom heim og systir bóndadóttur sá gersemar þær er hún hafði eignazt öfundaði hún hana og mælti að systir sín skyldi ekki vera heima næsta ár, heldur hún sjálf. Nú kemur annað gamlárskvöld og situr eftirlætisdóttirin heima; hlakkar hún mjög til komu álfafólksins og býður því heim og lýsti bæinn. Síðan kom huldufólkið, eins vel búið og fyrri, raðaði meiðunum á gólfið, fór að dansa og bauð henni í dansinn, og það þáði hún. En svo fór að hún lærbrotnaði í dansinum og varð vitstola. En huldufólkið fór burt með alla gripina.