Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Torfi í Hvömmum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Torfi í Hvömmum

Í Aðalreykjadal í Hvömmum var seint á 18. öldinni vinnumaður sem Torfi hét. Hann var ágætavel gefinn, gáfaður, mesti fjörmaður og afbragðsfríður sýnum. Hann var fjármaður og hélt fé á beit fram með Laxá niðri í sjálfu árgilinu á eyrum og grasflesjum með ánni. Einn dag lenti hann í molludrífu með féð. Á heimleiðinni lá leið hans fram hjá kletti einum sem hann þekkti gjörla enda hafði kletturinn örnefni þótt hér sé eigi nefnt. Sér hann í logndrífunni hvar dyr standa opnar á klettinum og standa í dyrunum tvær stúlkur með ljós í hendi; var önnur eldri, en önnur yngri. Sú hin yngri kallar til hans: „Komdu hingað!“ Þessi sömu orð kallar hún þrisvar. Hann varð skelkaður og flýtti sér sem mest hann mátti með féð fram hjá klettinum. En stúlkan reiddist og kallaði eftir honum: „Þú skalt girnast kvenfólk manna mest, en aldrei fá.“ Þessi ummæli hennar urðu líka áhrínsorð; Torfi eins og umhverfðist að skapsmunum sínum; þar sem hann var fjörmaður varð hann hugsjúkur; þar sem hann var uppáhald allra kvenna sökum fríðleika og góðra kosta vildi nú engin þeirra sjá hann, og lifði hann ókvongaður alla ævi.