Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllið í Fáskrúð og prestsdóttirin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Tröllið í Fáskrúð og prestsdóttirin

Eitt sinn bar það til á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði að dóttur prestsins hvarf svo enginn vissi og fannst ekki hvar sem leitað var. Nú var hætt leitinni um síðir og liðu nokkur ár að menn vissu ei hvað af henni hafði orðið. En einu sinni vildi svo til að menn voru á sjó og hvessti á þá, en á firði þessum stendur klettur allmikill eða eyja sem kallast Fáskrúður og sem fjörðurinn dregur nafn af. Menn þessir hleyptu upp í eyju þessa. Þegar þeir komu upp í hana nokkuð sjá þeir hellir; þeir ganga þar inn og eru þar um nóttina. Einn þessara manna er Þorsteinn hét var kvæðamaður og fór að kveða í Jesúrímum, en þegar hann er búinn að kveða nokkur erindi heyrðu þeir að sagt var innar í hellirnum: „Nú er konu minni skemmt, en ekki mér.“ Þorsteinn svarar: „Hvað viltu láta kveða?“ Honum er aftur svarað: „Andrarímur þykja mér fallegastar.“ Þorsteinn fór að kveða úr þeim, en þegar hann er búinn að kveða stundarkorn þá er aftur sagt: „Viltu graut Steini?“ Hann játaði því. Þá er rétt í gegnum járngrindur, sem voru innarlega í hellirnum, stór ausa með heitum graut. Þetta þótti þeim allgott átu.

Nú líður þar til um morguninn að þeir komast úr eynni og fóru í land og sögðu frá þessu. Þá þóttust menn vita hvar prestsdóttur mundi vera; en fáum árum seinna einn morgun kom prestur út á Kolfreyjustað; þá stóð líkkista á kirkjugarðinum. Prestur gekk að kistunni og sló hana upp. Þar þekkti hann dóttur sína framliðna og sá líkur til að hún mundi hafa dáið af barnsförum, en á meðan hún var jörðuð stóð tröllkarl utan við kirkjugarðinn grátandi. Þegar búið var að jarða sáu menn hann ganga út að sjó og þóttust sjá hann eins og ganga á skíðum fram í Fáskrúðinn, en síðan hefur ekki orðið vart við hann.