Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllið í Skrúðnum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Tröllið í Skrúðnum

Einu sinni hvarf prestsdóttir á Hólmum í Reyðarfirði; var hennar leitað um land og lög og fannst hún hvorgi. Upp úr firðinum stendur fjallstrókur, kallaður Skrúður. Þar höfðu sveitarmenn fé sitt til göngu á haustum og sóttu bak jólum; hafði þá árlega horfið bezti sauðurinn úr fénu, en misstist einkis annars.

Einu sinni um vetur reri skip til fiskjar og náði ei lendingu sinni og hleypti undir klett í Skrúðinum. Skipverjar brýndu skipi sínu votir og sjóhraktir og settust á hillu í klettinum og fóru að kveða Marjurímur. Opnaðist þá kletturinn og kemur út forkunnarstór mannshönd með hring á hvurjum fingri og rauð skarlatsermi að ofan; réttir hún út stórt grautartrog með spónum á manntal og er sagt inni; „Nú er konu minni skemmt, nú er ekki mér skemmt.“ Þegar skipverjar voru mettir og hresstir af heitum grautnum hvarf trogið inn í klettinn. Daginn eftir komust þeir í land.

Árið eftir fór á sömu leið fyrir öðru skipi um sama leyti sem reri. Kváðu þeir á klettasyllunni allar Andrarímur. Kom út sama höndin með fullt trog af feitu og heitu hangiketi og heyra þeir þá sagt: „Nú er mér skemmt, nú er ekki konu minni skemmt.“ Komust þeir svo mettir á land þá veðri slotaði. Liðu svo nokkur ár þar til Guðmundur biskup var eystra í vísitasíuferð og vígði vötn og bruna og batt orminn undir fossinum í Lagarfljóti. Gisti hann að Hólmum. Bað prestur hann að vígja Skrúðinn. Nóttina sömu dreymdi biskup að maður mikill vexti og skrautbúinn kæmi til sín og segði: „Farðu ekki að vígja Skrúðinn; því ég hef mikið að flytja og á erfitt með flutninga enda muntu ekki fleiri ferðir fara farir þú til byggða minna að gjöra mér mein;“ yfirgaf þá biskup vígsluferð sína í Skrúðinn.