Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllin á Vestfjörðum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í fyrndinni voru þrjú tröll á Vestfjörðum sem tóku sig til og ætluðu að moka sund á milli Vestfjarða og hins landsins nálægt því sem það er mjóst, milli Gilsfjarðar og Kollafjarðar. Þó höfðu þau annan tilgang um leið: þau ætluðu sumsé að búa til eyjar af því sem þau mokuðu úr sundinu. Að vestanverðu gekk moksturinn miklu betur enda var Breiðifjörður allur grynnri en Húnaflói og þeim megin tvö tröllin, karl og kerling, og mynduðu þau af mokstrinum allar eyjarnar sem enn eru eins og berjaskyr á Breiðafirði. En að austanverðu fór allt miður úr hendi þeirri einu tröllkonunni sem þar var, því bæði er aumt eins liðið og Húnaflói miklu dýpri og varð það því flest allt að blindskerjum sem hún mokaði og leið næsta óhrein og skerjótt um flóann.

Tröllin voru að moka alla liðlanga nóttina og gættu ekki að sér fyrr en dagur var kominn upp á háloft. Þá tóku vestantröllin til fótanna og hlupu svo hart sem þau gátu komizt austur og norður yfir Steinadalsheiði og ætluðu að fela sig í Kollafirði. En þegar þau komu ofan á sjávarbakkann kom sólin upp og urðu þau þar bæði að steinum sem síðan heita Drangar. Standa þeir hvor hjá öðrum í svokallaðri Drangavík nálægt Kollafjarðarnesi. Er annar drangurinn allur meiri um sig ofan og mjókkar niður, það er karlinn, en hinn er uppmjór, en gildnar allur niður svo sýnist móta fyrir maga og niðurhlut og jafnvel lærum á honum, það er kerlingin. En frá kerlingunni sem mokaði að austanverðu er það að segja að hún varð of naumt fyrir og gáði sín ekki fyrr en birta fór. Hún stökk þá norður yfir Steingrímsfjörð og staðnæmdist hjá klettabelti einu fyrir norðan fjörðinn sem Malarhorn heitir, þegar sólin skein á hana. Hún var svo reið að hún náði ekki upp í nefið á sér af því að hún hafði ekki getað látið standa upp úr Húnaflóa nema fáeina varphólma á fjörðum og nokkur smásker. Rak hún þá rekuna í grellsköpum í Hornið svo fast að úr því sprakk ey sú sem enn er á Steingrímsfirði og Grímsey heitir. Er það eina stóreyjan sem tröllkonu þessari tókst að mynda. Og segja menn að grjótlagið sé allt hið sama í eynni sem í Malarhorni og sé það því auðséð að af því bergi sé hún brotin. Rétt við eystri eyjarendann er klettur einn líkur nauti að lögun; hann er hár og hnarreistur þeim megin sem frá eynni snýr enda er hann kallaður Uxi og er hnarreisti endinn á honum svipaður kirkjuturni, og áttu það að hafa verið horn uxans. Þann uxa átti kerling og stóð hann á eynni þegar hún sprakk fram á fjörðinn, en dagaði þar uppi eins og fóstru hans. Síðan hefir enginn ráðizt í að búa til eyjar á Breiðafirði eða Húnaflóa né heldur reynt að moka sundur landið milli meginlands og Vestfjarða.