Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllin í Þórisási

Úr Wikiheimild

Út frá svokolluðum Þórisás í Kirkjubæjarlandi liggur hátt klettabelti sem nefnt er Skersli; þar er hellir og segja menn að í fornöld hafi búið í honum tröllkall sem Þórir er nefndur. Hann átti sér konu, en ei er getið um nafn hennar. Þau lifðu af veiði úr vötnum og fugla og dýr veiddu þau líka, en til hátíðabrigðis um hvör jól leituðust þau við að seiða til sín prest frá Kirkjubæ og tókst þeim það oft og voru flestir klerkar þar skamma stund. Þetta varð hljóðbært og var við sjálft búið að enginn prestur mundi fást til Kirkjubæjar. Um síðir sókti um brauðið gamall prestur er Eiríkur hét sem lengi hafði brauðlaus verið. Kvaðst hann glaður þangað fara og öngva óvætti hræðast. Hann var fálátur og ei við alþýðuskap, en góður klerkur þókti hann og mjög andríkur og var það mál manna að hann mundi vita nokkuð frá sér. Honum var veittur Kirkjubær og fór hann þangað snemma sumars og varð sóknarfólk honum mjög fegið og er ei getið annars en honum félli vel. Þegar leið að jólum spurðu menn hann hvurt hann kviði hátíðinni, en hann kvað því fjærri fara.

Nú fór eins og vant var að Þórir langaði í mannakjöt til hátíðarinnar, og á jólanóttina eftir dagsetur settist hann á seiðhjallinn og vildi fyrir hvurn mun ná í prest, en þegar hann hafði litla stund á seiðhjallinum setið stökk hann ofan með ópi og óhljóðum og sagðist vera að brenna og stikna. Kerling hans reiddist við hann og sagði honum að reyna til aftur, en það fór á sömu leið svo Þórir mátti hætta við svo búið og fengu þau öngvan prestinn til hátíðarinnar. Svona gekk önnur og þriðju jól; þá varð kerling Þórirs reið og sagði hann mundi svelta sig í hel. Bað þá Þórir hana að kjósa sér heldur hvaða mat sem hún vildi; kvaðst hún þá helzt vilja silung. Sagðist hann þá atla í það bezta veiðivatn sem nálægt væri og skyldi hann fá góða máltíð handa þeim. Þórir fór svo á stað og flýtti sér allt hvað hann kunni. Svo leið öll nóttin að hann kom ekki heim aftur. Varð þá kerlingu hans skapbrátt, stökk á stað og fór að vita um hann, en þegar hún kom á vatnið fann hún bónda sinn liggjandi á vakarbarminum steindauðan og frosinn við ísinn. Varð hún þá mjög ófrýn, formælti vatninu og mælti svo um að aldrei yrði veiði í því. Silung þann sem karl hennar var búinn að veiða bar hún heim, en þegar hún var komin austarlega á ásinn heyrði hún að klukkunum var hringt á Kirkjubæ. Varð henni þá mjög bilt við og í því sama er sagt að hún hafi litið til hafs og rann þá dagur. Varð hún þá að steini þeim er enn í dag stendur á ásnum og er kallaður Skessusteinn. Vatnið og ásinn er kenndur við Þórir. Síðan hefur aldrei orðið vart við neina óvætti nálægt Kirkjubæ og hefur engin veiði síðan verið í Þórirsvatni.