Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllin í Bláfjalli

Úr Wikiheimild

Það var lengi fram eftir öldum að við Mývatn varð vart við tröll þar á öræfunum; áttu þau helzt heima í fjalli því er Bláfjall heitir og hafa verið af þeim sagðar ýmsar sögur, og var það einkum að vart varð við þau meðan fjárhús þau vóru byggð frá Grænavatni sem Melahús vóru kölluð,[1] því tröll tóku nokkra fjármenn sem þar geymdu fjár og vóru þau um síðir lögð af fyrir tröllagang og reimleik.

Einhverju sinni var það að presturinn við Mývatn átti þá konu sem Sigríður hét. En hann naut hennar ekki lengi því tröll tóku hana áður þau höfðu lengi saman verið, og er hennar var leita farið var prestur í leitinni. En er hann kom suður undir Bláfjall sá hann þar konu sína. Talaði hann þá til hennar og mælti: „Á hvern trúirðu, Sigríður kona mín?“ Svaraði hún þá: „Ég trúi á trunt trunt og tröllin öll í fjöllunum.“ Sneri hann þá aftur og var hennar ekki meira leitað.

Öðru sinni var það að maður sá er Ólafur hét var á gangi suður á fjöllum. En er hann kom suður undir Bláfjall var kallað til hans og sagt:

„Ólafur muður, ætlarðu suður?
Ræð ég þér það rangkjaftur
þú reikir heim aftur.“

Þá svaraði Ólafur:

„Sit þú heil á hófi
Hallgerður í Bláfjalli.“

Þá mælti hún:

„Fáir kvöddu mig svo fyrri
og farðu vel, ljúfurinn minn.“

Sneri þá Ólafur heimleiðis.

Eitt skipti náði tröllkona úr Bláfjalli manni þeim er Jón hét; hafði hún hann hjá sér og vildi fyrir engan mun sleppa honum, en hann þekktist það ekki og vildi engan mat smakka. En einhverju sinni þegar hún var að bjóða honum mat sagðist hann kynni éta ef hún færði sér tólf ára gamlan hákarl. Fór hún þá að útvega hákallinn, en Jón gat komizt burt á meðan og hljóp þá hvað fætur toguðu, en þegar kella kom heim saknaði hún Jóns og flýtti sér þá eftir honum, en Jón var svo frár að hann dró undan henni til byggða. En á leiðinni heyrði hann að hún var að kalla smám saman: „Tólf ára gamall hákallinn, Jón, og þrettán ára þó,“ og er það síðan haft að máltæki. En Jón langaði þá ekki í hákallinn svo konutetrið missti hans. En eftir þetta fannst skór frá Mývatni og var haldið að tröllkonan hefði misst hann þegar hún elti Jón. Var að sjá að rostungsleður væri í skónum og var hann langa tíð hafður fyrir trogbera á einum bæ í Mývatnssveit.

  1. Þau eru suðaustur frá Mývatni. [Hdr.]