Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllkonan í Helgafellssveit

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Tröllkonan í Helgafellssveit

Af tröllkonu þeirri sem átti heima í Helgafellssveit eða fjöllunum þar í kring, fyrst í Helgafelli, en síðan þegar kirkja var þar reist, í Kerlingarfjalli, fara ýmsar sögur og skal hér getið þriggja.

Hvítabjarnarey er ein af þeim eyjum sem liggja undir Stykkishólm á Breiðafirði. Hún dregur nafn af því að þar kom hvítabjörn á land og lagðist í bás einn sunnan á eynni sem er luktur háum hamrabjörgum allt í kring. Tröllkona var þar ein á landi upp og segja menn að hún hafi átt heimkynni í Helgafelli og hefði það þá átt að vera áður en kristni var lögtekin hér á landi og kirkja reist á Helgafelli því tröll fyrtust kristni og kirkjur. Tröllkonan varð þess vör að björninn var kominn í bás þann í eynni sem fyrr er nefndur og fór því ofan á Þingvallaborg sem er gegnt eynni á landi og kastaði þaðan bjargi miklu er hún ætlaði að bangsa skyldi að bana verða. En svo vildi til að steinninn kom ofar en hún ætlaði og lenti í bjargsbrúnunum fyrir ofan básinn og beggja vegna við hann, og liggur hann þar enn í dag yfir þveran básinn, en björninn varð ómeiddur.

Önnur sögn er það vestra að kerlingin sem átti heima í Kerlingarfjalli hafi orðið þess vísari að maður einn var róinn til fiskjar út á Hrappseyjarsund, milli Hrappseyjar og Stykkishólms. Tröllkonunni var eitthvað í nöp við hann sem ekki er um getið hvað verið hafi og kastar því bjargi miklu að manninum þar sem hann situr á bátnum, en sá steinn segja menn hafi átt að lenda í Hvítabjarnarey og sjái þar enn klettinn, en kerling missti mannsins.

Nálægt Nesvogi hjá Stykkishólmi eru þrír litlir hólar sem sagt er að tröllkerlingin af Kerlingarskarði í Kerlingarfjalli hafi kastað þangað og ætlaði hún að brjóta með þeim kirkjuna á Helgafelli.