Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllskessan og taflið

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni var tröllskessa sem bjó í helli í fjalli einu og sem lifði á því að ræna frá mönnum þar í nánd. Þar í nánd var kona ein er átti son einan barna; hún var kvenskörungur mikill. Hún átti tafl mjög fagurt og hafði maðurinn hennar sálugi gefið henni það í morgungjöf og henni þótti því mjög vænt um það. Einu sinni ferðaðist hún burt frá kofa sínum og sonur hennar með henni; var þá enginn heima. Tröllskessan komst að því og fór nú á stað til þess að sækja taflið og henni tókst það. Skömmu síðar kom konan heim og sá að taflið var horfið og vissi nú hver valda mundi. Hún kallaði því á son sinn og sagði honum hvar komið var og kvaðst mundi drepa hann ef hann ekki sætti taflið. Strákurinn fór hágrátandi á stað og kom til hellis skessunnar og er hún sá hann varð hún glöð og mælti við dóttur sína: „Þarna er kellingarstrákurinn, þú skalt sjóða hann handa mér á meðan ég er burtu, en fyrir alla muni skaltu halda upp á sinina og bittu hana við potteyrað.“ Nú fór kelling á stað og stelpan ætlaði þegar að skera drenginn á háls. En hann bað hana sýna sér fyrst allar gersemar kellingar, og gerði hún það; síðan sagði hann við hana að betra væri að þau reyndu með sér í glímu, og það gjörðu þau, en svo fór að hún varð undir; þá tók hann af henni hnífinn og skar hana á háls og fór í föt hennar og tók að sjóða. Hann var í vandræðum með sinina. En honum datt í hug gott ráð; hann hljóp út og að hesti sem var þar skammt frá og hjó undan honum skökulinn og batt við potteyrað; nú kom kelling heim og spurði: „Hélztu vel upp á stykkið mitt?“ „Já,“ mælti strákur, sem hún hélt væri dóttir sín. Tók hún nú til stykkis síns og mælti: „Gott er það, en seigt er það.“ Síðan tók hún að éta hin stykkin; þá heyrði hún að sagt er niðri í pottinum: „Æ æ, þú ert að éta mig móðir mín, þú ert að éta mig móðir mín!“

Skessunni varð svo illt við að hún stökk út öskrandi, en í ofboðinu datt hún og hálsbrotnaði. Drengurinn fór á stað með það sem hann gat borið af hinu og þessu og þar á meðal var taflið. Lýkur svo sögunni.