Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tvær jólanætur

Úr Wikiheimild

Það var á bæ einum að allt fólk fór til messu [á jólanótt] nema vinnukona ein var heima. Þegar hún hafði aflokið heimastörfum settist hún á rúm sitt og kveikti kertaljós og fór að lesa í bók. Stundu seinna komu tvö börn inn í baðstofu og léku sér, seinast lögðu þau hendur á skaut kvenmanninum, en hún tók kertið sitt og skipti því í þrjá hluti og gaf sinn þriðjung hverju barni, en átti sjálf einn. Þá hýrnaði yfir börnunum og hlupu þau því næst í burtu. Skömmu síðar kom maður á kjól inn í baðstofuna; hann heilsaði blíðlega kvenmanninum og vildi fá hana til fylgilags með sér, en þess var engi kostur; fór hann þá í burtu við svo búið. Því næst kom inn til hennar kona; hún kvaddi hana og þakkaði henni fyrir börnin sín. Tók hún upp hjá sér rautt klæði og sagðist vilja gefa henni það fyrir börnin sín og fyrir það hún vildi ekki þýðast manninn sem til hennar hefði komið. Því næst gekk hún í burtu. Þegar heimilisfólkið kom heim frá kirkjunni þá sá konan (húsmóðirin) pilsefnið hjá vinnukonu og öfundaði hana af því. Grófst hún vandlega eftir hvernig hún hefði fengið það, en vinnukona vildi eigi segja frá því.

Leið svo fram að jólum veturinn eftir að ekkert bar til tíðinda. Húsmóðirin lét allt fólk fara til kirkju, en var sjálf heima. Þegar hún hafði aflokið heimastörfum sínum settist hún upp á rúm með ljós og fór að lesa í bók. Þá komu börnin sem fyr og léku sér á pallinum, en þegar þau lögðu hendur á skaut henni flengdi hún á þær, en börnin hlupu burtu grátandi. Nú kom kjólmaðurinn til hennar og heilsaði hann henni blíðlega og mæltist til þess sama við hana og við vinnukonuna. Hugsaði hún þá að þessi maður hefði gefið vinnukonunni pilsefnið og varð strax við bón hans. Síðan fór hann í burtu. Þá kom konan til hennar og tók í hægri hendina á henni og sagði að hún mundi hafa flengt börnin sín með henni og klappað manninum sínum, og lagði hún það á hana að hún skyldi í henni aldrei jafngóð verða og fór svo burtu, en konan missti aflið úr hendinni.